Fótbolti

„Sex til sjö leik­menn haltrandi inni á vellinum“

Hjörvar Ólafsson skrifar
Hermann Hreiðarsson gefur lærisveinum sínum skipanir. 
Hermann Hreiðarsson gefur lærisveinum sínum skipanir.  Vísir/Pawel

Hermann Hreiðarsson, þjálfari HK, kunni vel að meta að leikmenn beggja liða gáfu allt í botn í seinni hálfleik í sigri hans manna gegn Þrótti í fyrri undanúrslitaleik í umspili um sæti í efstu deild karla í fótbolta í Kórnum í kvöld. 

„Þetta var í raun alveg lygilegt. Leikurinn fór rólega af stað og bæð lið voru varfærin í fyrri hálfleik. Svo fór allt bara í hvínandi botn í seinni hálfleik sem var alveg stórskemmtilegur. Við byrjum seinni hálfleikinn af krafti og setjum inn tvö mörk,“ sagði Hermann Hreiðarsson, þjálfari HK, í hálfgerðu sjokki eftir viðburðarríkan seinni hálfleik.

„Svo kemur bara frekar skrýtinn kafli þar sem það eru sex til sjö leikmenn hjá okkur haltrandi inni á vellinum og ég þurfti að velja hverja af þeim ég myndi taka út af. Það var óþarfi að leka inn þremur mörkum á þeim kafla en við vorum laskaðir um tíma,“ sagði Hermann um þann tæpa tíu mínútna kafla þar sem Þróttur skoraði þrjú mörk.

„Við sýndum hins vegar alvöru karakter að snúa taflinu aftur okkur í hag og tryggja okkur sigurinn á lokakaflanum. Það hefði verið auðvelt að koðna eftir að hafa lent undir en við komum aftur á móti grjótharðir til baka og náðum okkur í forskot fyrir seinni leikinn,“ sagði hann stoltur af leikmönnum sínum.

„Þeir sem komu inná mættu sprækir til leiks og við fengum innspýtingu með þeim. Þetta var galopið og sem betur fer náðum við að innbyrða sigur. Ólafur Örn varði vel undir lokin og tryggði okkur sigur. Nú þurfum við að sjá hverjum við getum tjasslað saman fyrir seinni leikinn. Það væri gott að hafa reynsluboltana með í þeim leik,“ sagði Hermann um seinni rimmu liðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×