Erlent

Orrustu­þotur yfir Borgundar­hólmi og drónar trufla flug í Noregi

Agnar Már Másson skrifar
Lögreglan segir að aðgerðin sé til þess fallin að sýna fælingarmátt. Herinn vill samt ekki tjá sig. Mynd úr safni af heræfingu Danahers á Grænlandi í september.
Lögreglan segir að aðgerðin sé til þess fallin að sýna fælingarmátt. Herinn vill samt ekki tjá sig. Mynd úr safni af heræfingu Danahers á Grænlandi í september. AP

Danskar orrustuþotur hafa verið á sveimi yfir Borgundarhólmi í kvöld. Í Noregi hefur þurft að snúa tveimur flugvélum við í dag vegna tilkynninga um drónaumferð við flugvelli.

Talsmaður lögreglunnar á Borgundarhólmi staðfestir við TV2 að vélarnar hafi „fyrst flogið aðra leiðina yfir eyjuna og síðan hina leiðina til baka.“ Danskir miðlar kveðast hafa fengið fjölda tilkynninga vegna þotanna frá íbúum á dönsku eyjunni.  

Talsmaður lögreglunnar segir aðgerðina vera hluti af „fælingarviðbúnaði“, þá til þess fallinn að standa vörð um danska lofthelgi. Yfirstjórn hersins vildi samt ekki staðfesta þessar upplýsingar í samtali við TV2.

Þetta þarf ekki endilega að þýða að lofthelgi landsins hafi verið brotin, samkvæmt því sem fram kemur á vef danska hersins. Á þessu ári, til og með 31. maí, hefur danski herinn ráðist í slíkar aðgerðir 33 sinnum og öll þau skipti hafa verið yfir Eystrasalti, samkvæmt vef hersins. 

Truflanir í Noregi

Fyrr í dag sást dróni á lofti við flugvöllinn í Brunneyjarsundi við vesturströnd Noregs og þurfti fyrir vikið að beina flugvél á flugvöllinn í Þrándheimi, að því er VG greinir frá. 

Auk þess hafði vél á vegum Norwegian air þurft að snúa við um 21.30 í kvöld vegna tilkynningar um dróna við Bardufoss.

Stjórnvöld á Norðurlöndum hafa verið á tánum eftir að dularfullir drónar sáust fljúga yfir Kastrúp-flugvelli síðasta mánudag. Yfirvöld í Danmörku hafa ákveðið að banna almenningi að fljúga drónum yfir landinu þar sem drónar þykja hafa sést víða yfir dönskum flugvöllum og herstöðvum á undanförnum dögum sem valdið hefur töluverðri óreiðu þar í landi.

Danmörk bannar dróna

Bannið mun taka gildi á morgun og standa yfir út föstudaginn næstkomandi. Næsta fimmtudag fer fram óformlegur leiðtogafundur Evrópusambandsins í Kaupmannahöfn og er það sagt spila stóra rullu í þeirri ákvörðun sem hafi verið tekin að banna drónaflug.

Drónarnir yfir Danmörku koma á hælana á því að 21 rússneskum dróna var flogið inn í lofthelgi Póllands og þremur rússneskum herþotum var flogið inn í lofthelgi Eistlands. 

Aðkoma Rússa að drónunum yfir Danmörku hefur ekki verið staðfest en spjótin hafa beinst að þeim. Ráðamenn í Moskvu þvertaka fyrir að hafa gert nokkuð af sér. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×