Menning

„Kunna ekki að reikna, kunna svo ekki að skammast sín“

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Andra þykir Spursmál ekki vænlegur vettvangur fyrir uppbyggjandi umræðu.
Andra þykir Spursmál ekki vænlegur vettvangur fyrir uppbyggjandi umræðu. Vísir/Samsett

Andri Snær Magnason hafnar boði Stefáns Einars Stefánssonar blaðamanns í það sem hann segir „einhvers konar einvígi.“ Hann setur út á það að upphafleg grein, þar sem ansi frjálslega er farið með stærðfræðina, hafi ekki verið leiðreitt heldur að þess í stað hafi honum verið boðið í viðtal til að breiða rangfærslurnar enn frekar út.

Tilefni ummælanna er heit umræða undanfarna daga eftir að Morgunblaðið birti úttekt Samtaka skattgreiðenda á ritlaunum listamanna það sem af er öldinni. Úttektin gerði grein fyrir fjölda mánaða sem hver rithöfundur hefur fengið úthlutaðan á fyrrgreindu tímabili og setti hann í samhengi við afköst þeirra. Mælikvarðinn sem var notaður var fjöldi bóka og blaðsíðna.

Höfundum ofætlaðar greiðslur svo nemi tugum milljóna

Andri Snær var í úttektinni með fæst verk, fimm bækur á 25 árum, og nákvæmur útreikningur fylgdi þar sem stóð að Andri hefði fengið 106.957 krónur fyrir hverja blaðsíðu. Andri dró fram í aðsendri grein öll þau verk sem Samtök skattgreiðenda „gleymdu“ að taka með inn í reikninginn, sem nam talsverðum fjölda verka.

Stefán Einar Stefánsson sem skrifaði greinina upp úr gögnum Samtaka skattgreiðenda brást við ábendingum Andra Snæs með því að skora hann á hólm í sjónvarpsþætti Stefáns sjálfs. Greinin hefur ekki verið leiðrétt. Hann birti færslu á samfélagsmiðlum þar sem hann segist hafa boðið Andra að ræða framlag skattgreiðenda til listsköpunar, eðli launanna og mikilvægi.

„Nú er bara að vona að allir leggi sín lóð á vogarskálarnar, upplýstri og áhugaverðri umræðu til framdráttar,“ skrifar Stefán.

„Upplýst og áhugaverð umræða“ reist á sandi

Andri segir framkomu Stefáns Einars fyrir neðan allar hellur.

„Ég sendi leiðréttingu á Morgunblaðið og bendi á ófagleg vinnubrögð. Þar eru verk mín gróflega vantalin. Því er svarað með áskorun um að mæta blaðamanni í einhverskonar einvígi, en fréttin er EKKI leiðrétt heldur þvert á móti. Sett á netið, uppfærð í dag klukkan 11:51 með öllum rangfærslum en engum leiðréttingum! Á ég að mæta í viðtal til að rangfærslurnar verði viral? Eiga þær að standa í blaðinu eins og sannleikur svo fólk geti fundið það sem „heimild“ í framtíðinni?“ skrifar hann.

Hann segir tölurnar sem Stefán byggir umfjöllun sína á kolrangar og að tíu höfundum hafi verið ofætlaðar greiðslur svo nemi tugum milljóna.

„Kunna ekki að telja bækur. Kunna ekki að reikna. Kunna svo ekki að skammast sín. Hvað er þá eftir?“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.