Menning

„Lé­leg“ hönnun gervi­greindar reyndist mannanna verk

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Þórarni og Agli fannst ekki mikið til „gervigreindarlegrar“ Ellyjar koma. Bragi Valdimar spyr hvort ferli teikningarinnar hafi áhrif á skoðanir sjáfs verksins.
Þórarni og Agli fannst ekki mikið til „gervigreindarlegrar“ Ellyjar koma. Bragi Valdimar spyr hvort ferli teikningarinnar hafi áhrif á skoðanir sjáfs verksins.

Fólk sem bölvaði því að plakat af Elly Vilhjálms hefði verið skapað með gervigreind reyndist hafa rangt fyrir sér. Teiknarar af holdi og blóði báru ábyrgðina. Hugkvæmdastjóri Brandenburg segir að fólk sem finnist hlutir „gervigreindarlegir“ dæmi þá greinilega fyrirfram. Hann spyr hvort vitneskjan um ferlið hafi áhrif á skoðanir fólks.

Þórarinn Leifsson, myndlistarmaður og rithöfundur, vakti athygli á plakatinu, sem er fyrir níutíu ára afmælistónleika söngkonunnar sem verða í Eldborg 28. desember næstkomandi, á sunnudag með Facebook-færslu

Myndirnar tvær sem Þórarinn deildi á Facebook.

Færslunni fylgdu tvær myndir, önnur af gamalli plötu frá 1960 með ljósmynd af Elly og hin af nýja plakatinu þar sem hún minnir á art deco-veggmynd.

„Hérna er mjög gott dæmi um vonda AI hönnun sem á að auglýsa atburð í Reykjavík. Vinstra megin er kona með sál. Hægra megin er búið að sykurhúða. Ellý er ekki lengur Ellý – hún er eitthvað allt annað,“ skrifaði Þórarinn í færslunni.

„Þetta er ekki sama konan“

Færslan vakti auðvitað dálitla athygli og skrifuðu nokkrir ummæli við færslunni, allir tóku þar undir sjónarmið Þórarins.

„Þetta er ekki sama konan, auk þess sem ai-ið er ótrúlega lélegt,“ skrifaði myndlistarkonan Ragnhildur Jóhannsdóttir við færsluna.

Ragnhildur og Bergrún fíluðu ekki myndina.

Bergrún Íris Sævarsdóttir, barnabókahöfundur og teiknari, lagði orð í belg: „Hræðilegt“

„Ömurlegt,“ skrifaði sjónvarpsmaðurinn Egill Helgason og deildi síðan færslu Þórarins á eigin Facebook-síðu:

„Gott dæmi um hvað gervigreind er léleg í að ,hanna'.“

„Líklega mun fólk bráðlega vilja líkjast gervigreindarteikningu. Og þá vilja fæstir hafa sál. Hún er svo ófullkomin og púkó,“ skrifaði Gunnar Smári Egilsson, ritstjóri Samstöðvarinnar, við færsluna.

Fýlupokapartýið entist þó ekki mjög lengi því starfsfólk Brandenburg mætti á þráinn til að kveða gervigreindar-gagnrýnina í kútinn.

„Athyglisverð umræða. Þetta veggspjald er hannað á Brandenburg og teiknað af einum færasta myndskreyti landsins,“ skrifaði Facebook-aðgangur Brandenburg á þráð Egils.

„Það er áhugavert að á meðan talað er um að gervigreind komi til með að taka yfir störf hönnuða og myndskreyta (sem við erum reyndar alveg ósammála) þá er mesta ógnin kannski sú að venjulegt fólk missir virðingu fyrir raunverulegu handverki,“ stóð jafnframt í ummælunum.

Svona lítur art deco-plakatið út.

Fólk dæmi „gervigreindarleg“ verk fyrirfram

Blaðamaður heyrði hljóðið í Braga Valdimari Skúlasyni, hugkvæmdastjóra Brandenburg, til að forvitnast frekar út í myndina af Elly og höfund hennar.

„Fólk er nú tiltölulega rólegt yfir þessu hér, en það voru nokkrir sem komu að þessu verki. Verkið var handteiknað, hannað og svo unnið áfram í þrívíddarforriti og myndvinnslu af lifandi fólki — eftir gamalli ljósmynd af Elly. Grunnhugmyndin var að vinna lágmynd í Art Deco stíl fyrir sérstaka áramótasýningu,“ segir Bragi Valdimar.

Bragi Valdimar ásamt Friðriki Ómari sem hélt einmitt fimm stjörnu tónleika um bróður Ellyjar, söngvarann Villa Vill, um helgina.Vísir/Hulda Margrét

„Okkur finnst aðallega áhugavert að velta þessu fyrir sér. Við erum greinilega komin á þann punkt að þegar fólki finnst eitthvað „gervigreindarlegt“ dæmir það verkin fyrirfram út frá þeim forsendum.“

Hafa ásakanir um notkun gervigreindar aukist samhliða almennri notkun gervigreindar?

„Það hefur komið fyrir að fólk gefur sér fyrirfram að okkar vinna sé gerð með gervigreind, þrátt fyrir að hún sé það alls ekki. Stóra spurningin er hvort það breytir því hvað fólki finnst um útkomuna. Er þetta ennþá jafn hræðilegt og sálarlaust ef fólk veit að manneskja hefur komið að verkinu? Hefur vitneskjan um ferlið áhrif á það hvað fólki finnst?“ segir hann.

Gervigreindin komi ekki í stað innsæis og hæfileika

Er fólk farið að vantreysta teiknurum?

„Ekki teiknurum, en klárlega því sem það sér flæða yfir efnisveiturnar hjá sér. Það er alveg ljóst að gervigreind ógnar starfi teiknara og hönnuða og mun mögulega taka yfir hluta af þeirra störfum. Hún er samt ekki alslæm, tæknin getur flýtt fyrir, auðveldað skissuvinnu og hjálpað til við myndvinnslu og hreyfingu. En hún kemur ekki í staðinn fyrir innsæi og hæfileika góðs teiknara eða hönnuðar,“ segir Bragi.

Hvernig hefur gervigreindin annars haft áhrif, finnið þið eitthvað fyrir því að smærri kúnnar sleppi því að leita til ykkar og nýti sér gervigreindina frekar?

„Nei í raun ekki. Það er frekar að fólk leiti til okkar um ráðgjöf um notkunina. Þessi tækni er ekki að fara neitt og þess vegna er nauðsynlegt að læra að lifa með henni og nýta hana. Það er mjög mikilvægt að skoða hvernig hún getur nýst sem tól fyrir teiknara, rétt eins og Photoshop og blekpenninn. Það er til mikils að vinna ef hægt er að nota hana sem skapandi verkfæri en ekki bara sálarlaust vitlíki og stafræna hermikráku, sem hefur af fólki störf. Þegar allir geta gert „allt“ – þá fara aðrir hlutir að skipta meira máli, smekkur, listfengi, hönnun og stíll,“ segir hann.

„En það góða við einmitt þetta undarlega dæmi er — er að sem betur fer er ennþá ekki allt sem sýnist,“ segir Bragi Valdimar að lokum.


Tengdar fréttir

Gervi­greindar­fyrir­sæta í Vogue vekur ugg

Gervigreindin teygir anga sína sífellt víðar og nú síðast inn í heim hátískunnar. Lesendur Vogue ráku nýverið upp stór augu þegar ein opna tímaritsins innihélt fagra ljóshærða fyrirsætu sem reyndist eintómt gervigreindarfals.

Þungaður LeBron leggst þungt á LeBron

Stofnendur gervigreindartólsins Interlink segja körfuboltastjörnuna LeBron James hafa sigað lögfræðiteymi sínu á fyrirtæki þeirra vegna gervigreindarmyndbanda af James þar sem má sjá hann bæði óléttan og í hafmeyjulíki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.