Veður

Spá mikilli öldu­hæð við Faxa­flóa í vestan hvass­viðri

Atli Ísleifsson skrifar
Spáð er hárri ölduhæð við Faxaflóa eftir hádegi í dag og talsverðum áhlaðanda.
Spáð er hárri ölduhæð við Faxaflóa eftir hádegi í dag og talsverðum áhlaðanda. Vísir/Anton Brink

Gular veðurviðvaranir hafa verið gefnar út á höfuðborgarsvæðinu, við Faxaflóa og með suðurströnd landsins vegna vestan hvassviðris eða storms. Spáð er mikilli ölduhæð við Faxaflóa eftir hádegi í dag og talsverðum áhlaðanda. Þar sem einnig er stórstreymt getur sjór gengið á land og valdið staðbundnu tjóni.

Viðvaranir hafa verið gefnar út fyrir höfuðborgarsvæðið, Faxaflóa, Suðurland og Suðausturland, en þær taka allar gildi um hádegisbil í dag og gilda fram á kvöld. Á Suðausturlandi er viðvörunin þó gildi til klukkan níu í fyrramálið. Einnig má búast við dimmum éljum á fjallavegum norðvestanlands.

Gular viðvaranir taka allar gildi um hádegisbil í dag og gilda flestar fram á kvöld. Veðurstofan

Á höfuðborgarsvæðinu er spáð vestan 13 til 20 metrum á sekúndu þar sem verður hvassast vestast og snarpar vindhviður. Tryggja ætti lausamuni utandyra til að forðast foktjón.

Á Suðurlandi má búast við vindhviðum að 30 til 35 metrum á sekúndu við fjöll. Verður hvassast í Mýrdal og í Öræfum. Varasöm akstursskilyrði gætu skapast fyrir ökutæki sem viðkvæm eru fyrir vindum.

Það verður úrkomulítið á Austurlandi fram á kvöld, en það mun stytta að mestu upp sunnan- og vestanlands seinnipartinn.Veðurstofan

Hiti á landinu verður fjögur til ellefu stig að deginum í dag. Úrkomulítið á Austurlandi fram á kvöld, en það mun stytta að mestu upp sunnan- og vestanlands seinnipartinn.

„Dregur úr vindi og úrkomu í nótt, suðvestan og vestan 5-13 og skýjað með köflum í fyrramálið, en fer að rigna eftir hádegi á morgun, fyrst á Suður- og Vesturlandi. Gengur í suðvestan 10-15 seinnipartinn og annað kvöld,“ segir á vef Veðurstofunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×