Innlent

Skýr af­staða lands­manna um hvort ein­kunnir eigi að vera í tölum eða bók­stöfum

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Meirihlutinn hefur talað. Langflestir eru hrifnari af því að einkunnir séu birtar í tölustöfum en bókstöfum samkvæmt nýrri könnun.
Meirihlutinn hefur talað. Langflestir eru hrifnari af því að einkunnir séu birtar í tölustöfum en bókstöfum samkvæmt nýrri könnun. Getty

Yfirgnæfandi meirihluti landsmanna er hlynntur einkunnagjöf í tölustöfum frekar en með bókstöfum samkvæmt nýrri könnun. Innan við þrír af hverjum hundrað eru hrifnir af því að einkunnir í íslenskum skólum séu birtar í bókstöfum. Nemendur sem hafa kynnst hvoru tveggja telja sumir að bókstafirnir séu betri á meðan öðrum þykja tölustafir nákvæmari og sanngjarnari.

Í allnokkur ár hafa einkunnir í íslenskum grunnskólum verið gefnar í bókstöfum í stað tölustafa líkt og áður var. Sitt sýnist hverjum um hvort er betra, en samkvæmt könnun Maskínu sem gerð var dagana 15. til 19. september liggur fyrir nokkuð afdráttarlaus skoðun meirihlutans.

Ríflega 88% svarenda finnst að einkunnir í íslenskum skólum eigi að vera birtar í tölustöfum. Innan við tíu prósentum finnst það ekki skipta máli og aðeins 2,6 prósent segjast vilja hafa einkunnir í bókstöfum.

Lítill munur er á svörum eftir aldri, þar sem yfirgnæfandi meirihluti í öllum aldurshópum er hrifnari af tölustöfum en bókstöfum, flestir þó á aldrinum 18 til 29 ára og fæstum á aldrinum 40 til 49 ára.

Fjöldatölur eru við hvern hóp. Aðeins er greint eftir bakgrunni fyrir þá hópa þar sem 5 eða fleiri svöruðu spurningunni.Maskína

Ekki var mikill munur á svörum eftir öðrum breytum heldur. Myndin hér að neðan sýnir hvernig svör dreifðust eftir kyni, aldri, búsetu, menntun, heimilistekjum og afstöðu til stjórnmálaflokka. Íbúar á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi, sem og kjósendur Pírata, Samfylkingar og Vinstri grænna voru þó öllu líklegri til að telja það ekki skipta máli hvort einkunnir séu í tölu- eða bókstöfum, en yfirgnæfandi meirihluti í öllum hópum kveðst hlynntari tölustöfum. Alls svöruðu 990 einstaklingar könnuninni.

Líkt og niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna eru svarendur allir 18 ára eða eldri. Fréttastofa fór á stúfana og ræddi við nokkra nemendur í Fjölbrautaskólanum við Ármúla, en þar fá nemendur einkunnir sínar í tölustöfum en ekki í bókstöfum líkt og þeir eru vanir úr grunnskóla. Líkt og heyra má í fréttinni hér að neðan hafa margir nemenda sterka skoðun á því hvort þeim finnst betra, bókstafir eða tölustafir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×