Íslenski boltinn

Arnari gekk illa að ná í þunna Víkinga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnar Gunnlaugsson er stoltur af eftirmanni sínum Sölva Geir Ottesen.
Arnar Gunnlaugsson er stoltur af eftirmanni sínum Sölva Geir Ottesen. Vísir/Ernir/Anton Brink

Arnar Gunnlaugsson var spurður að því á blaðamannafundinum í dag hvernig það var að fylgjast með Víkingum tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn um síðustu helgi.

Víkingar tryggðu sér titilinn með 2-0 sigri á FH en liðið er orðið meistari þrátt fyrir að tvær umferðir séu eftir.

Arnar gat svo sannarlega samgleðst fyrrum lærisveinum sínum og samstarfsmönnum.

„Það var bara mjög gaman. Ég er ótrúlega stoltur af klúbbnum og Sölva [Geir Ottesen, þjálfara],“ sagði Arnar sem þjálfaði Víkingsliðið frá 2018 til 2024.

„Það gekk reyndar erfiðlega að óska þeim til hamingju daginn eftir því þeir voru frekar þunnir kapparnir,“ sagði Arnar í léttum tón.

„Þetta er geggjað fyrir félagið sem og að sjá þessa ótrúlegu stemmningu sem myndaðist í Víkinni,“ sagði Arnar.

„Fyrir mig persónulega þá var þetta eins og sjá barnið sitt halda áfram að gera góða hluti. Þetta var eiginlega meiri gleði heldur en að vinna sjálfur,“ sagði Arnar og hann hefur ekki áhyggjur af Víkingum í framtíðinni.

„Framtíð félagsins er í topp-, topp-, toppmálum,“ sagði Arnar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×