Fótbolti

Hættir í lands­liðinu að­eins þremur lands­leikjum frá tvö­hundruð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sanne Troelsgaard spilaði sinn síðasta landsleik á Evrópumótinu í sumar og var eflaust búin að taka þessa ákvörðun þegar hún þakkaði fyrir leikinn.
Sanne Troelsgaard spilaði sinn síðasta landsleik á Evrópumótinu í sumar og var eflaust búin að taka þessa ákvörðun þegar hún þakkaði fyrir leikinn. Image Photo Agency/Getty Images

Danska knattspyrnukonan Sanne Troelsgaard hefur ákveðið að hætta að gefa kost á sér í danska landsliðinu.

Troelsgaard og danska knattspyrnusambandið gáfu saman út tilkynningu þar sem kom fram að þessi 37 ára gamli leikmaður sé hættur með landsliðinu.

Það sem gerir þennan tímapunkt sérstakan er að Troelsgaard hefur leikið 197 landsleiki og er því aðeins þremur leikjum frá tvö hundruð leikjum.

Hún spilar í dag með FC Midtjylland í Danmörku en hún lék sinn fyrsta landsleik fyrir tæpum átján árum síðan. 197. og síðasti leikur hennar með landsliðinu var á Evrópumótinu í sumar.

„Þetta er tregafull kveðjustund eftir tæp átján frábær ár, en ég er líka full af miklu þakklæti og gleði yfir allri þeirri reynslu, leikjum, sigrum, áskorunum og ekki síst fólkinu sem ég hef kynnst á tíma mínum með landsliðinu,“ segir Sanne Troelsgaard í tilkynningunni.

Troelsgaard er líka þrettán landsleikjum frá danska metinu en Katrine Pedersen spilaði 210 landsleiki fyrir Dani frá 1994 til 2013.

Troelsgaard er nýkomin heim til Danmerkur eftir átta ár í atvinnumennsku í Svíþjóð, á Englandi og á Ítalíu.

Hún skoraði alls 57 mörk fyrir danska landsliðið í þessum leikjum og þrjú þeirra komu á móti Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×