Viðskipti innlent

Hagnaður dróst veru­lega saman en fé­lagið á 850 milljónir

Árni Sæberg skrifar
Jón Pétur Zimsen er þingmaður Sjálfstæðisflokksins og framkvæmdastjóri Jökár ehf.
Jón Pétur Zimsen er þingmaður Sjálfstæðisflokksins og framkvæmdastjóri Jökár ehf. Vísir/Vilhelm

Eignarhaldsfélag þingmannsins Jóns Péturs Zimsen, tveggja bræðra hans og föður þeirra hagnaðist um 48 milljónir króna í fyrra. Hagnaðurinn árið áður nam 217 milljónum króna. Um áramótin nam eigið fé félagsins 848 milljónum króna en skuldir aðeins níu milljónum.

Þetta kemur fram í ársreikningi Jökár ehf. fyrir árið 2024, sem birtur var á dögunum. Þar segir að Jón Pétur eigi 41,1 prósent í félaginu, bróðir hans Jóhann Tómas 27,6 prósent, bróðir hans Óli Björn 25 prósent og faðir þeirra Nils Hafsteinn 6,3 prósent.

Erfingjar lyfsala

Eins og nafnið gefur til kynna eru þeir feðgar af Zimsenættinni, sem eru afkomendur Christians Zimsen sem stofnaði Laugarnesapótek og sat í stjórn lyfjafyrirtækisins Pharmaco hf., sem síðar varð Actavis.

Þá segir að tilgangur Jökár sé eignarhald, kaup, sala og hvers kyns viðskipti með fjármálagerninga, og hvers kyns önnur fjárhagsleg verðmæti: kaup, sala, rekstur, eignarhald og leiga fasteigna og hvers kyns lausafjár, lánastarfsemi og skyldur rekstur. 

Nánast skuldlaust

Hagnaður félagsins  á árinu 2024 hafi numið 48 milljónum króna Samkvæmt efnahagsreikningi nemi eignir félagsins 857 milljónum króna. Bókfært eigið fé í árslok sé samtals 848 milljónir króna og eiginfjárhlutfall 99 prósent.

Stjórn félagsins leggi til að greiddur verði þrjátíu milljón króna arður til hluthafa á árinu 2025. Það er sama upphæð og greidd var út vegna ársins áður, en þá nam hagnaður félagsins 217 milljónum króna.

Þannig fær Jón Pétur um 12,3 milljónir króna í arð, Jóhann Tómas 8,3 milljónir, Óli Björn 7,5 milljónir og Nils Hafsteinn 1,9 milljónir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×