Sport

Fékk mynd af sér með Littler eftir viður­eign þeirra

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alexander Veigar Þorvaldsson með heimsmeistaranum Luke Littler.
Alexander Veigar Þorvaldsson með heimsmeistaranum Luke Littler.

Alexander Veigar Þorvaldsson mætti sjálfum heimsmeistaranum í pílukasti, Luke Littler, á HM ungmenna í dag.

Alexander og Littler voru saman í riðli ásamt Jeffrey Keen og Matthias Moors. Keppt var í 32 fjögurra manna riðlum og komust tveir efstu áfram í 64-liða úrslit.

Littler vann alla þrjá leikina sína í riðlinum eins og við mátti búast enda heimsmeistari fullorðinna, hvorki meira né minna, þrátt fyrir að vera aðeins átján ára.

Alexander tapaði fyrir Moors, 5-3, í fyrsta leik sínum. Í öðrum leiknum mætti Grindvíkingurinn svo Littler. Alexander vann fyrsta legginn, Littler næstu tvo en Alexander jafnaði í 2-2.

Þá sagði Littler hingað og ekki lengra, vann næstu þrjá leggi og viðureignina, 5-2. Littler var með 108,59 í meðaltal en Alexander 92,64 sem hefði eflaust dugað til sigurs gegn mörgum. En Littler sýndi hvers hann er megnugur, sérstaklega í sjötta og sjöunda legg sem hann vann samanlagt með 21 pílu.

Í þriðja og síðasta leik sínum í riðlinum mætti Alexander Keen og tapaði naumlega, 5-4.

Alexander fór þó ekki tómhentur heim því hann nældi sér í mynd af sér með Littler. Þá lagði hann vel inn í reynslubankann fyrir komandi verkefni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×