Innlent

Skoða hvort þurfi að til­kynna samningana til ESA

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjavík.
Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjavík. Vísir/Sigurjón

Oddviti Sjálfstæðismanna í borgarstjórn segir ýmsum spurningum enn ósvarað um samninga borgarinnar við olíufélög um fækkun bensínstöðva. Skoða þurfi hvort tilkynna þurfi samningana til eftirlitsstofnunar EFTA. Í dag var birt skýrsla innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um samningana og vill oddvitinn bíða með frekari uppbyggingu á lóðunum.

Ráðist var í gerð skýrslunnar í maí í fyrra en forsaga málsins er sú að borgarstjórn samþykkti árið 2019 að fækka bensínstöðvum og hófu samningsviðræður við lóðahafa í kjölfarið sem urðu að samningum sem samþykktir voru 2021 og 2022 af borgarstjórn. Skýrslan telur 105 blaðsíður og þar kemur fram að Innri endurskoðun telur meðal annars að markmið borgarinnar hafa verið lögmæt og málefnanleg.  

Upplýsingagjöf í borgarráði hafi hinsvegar verið ómarkviss og að skortur hafi verið á formlegri greiningu á samningsmarkmiðum. Lagðar eru til tólf tillögur að úrbótum um verklag hjá borginni, meðal annars um úthlutun lóða og stýrihópa. Hildur Björnsdóttir oddviti Sjálfstæðismanna í borginni segir skýrsluna kalla á enn frekari spurningar.

„Nú þarf að skoða hvort með samningunum hafi verið brotnar reglur um samkeppni eða ríkisaðstoð, þannig það þarf að rýna í framhaldinu hvernig við fáumst við skipulag þessara lóða út frá þessum sjónarmiðum.“

Telur að bíða eigi með uppbyggingu á lóðunum

Sambærilegt mál sé úthlutun lóða í Efstaleiti sem borgin hafi afhent Ríkisútvarpinu.

„Og Ríkisendurskoðun hefur fjallað um þetta og talið þessa samninga fela í sér einmitt brot á reglum um samkeppni og ríkisaðstoð og ég hef lagt til að þessar lóðaúthlutanir verði tilkynntar til ESA og mögulega þarf að gera það sama og bara sennilega með þessa samninga, til að fá úr því skorið hver er staðan og höfum við brotið á þessum reglum og hvernig tæklum við það í framhaldinu.“

Enn sé verið að skipuleggja nokkrar af umræddum bensínstöðvarlóðum. „Og munu koma á næstu misserum til samþykktar til okkar og við þurfum núna að meta, getum við hleypt þessu skipulagi áfram á grundvelli þessarar skýrslu eða þurfum við að bíða með skipulag á þessum bensínstöðvarlóðum á meðan við fáum úr því skorið hvort við séum þarna að veita ólögmæta ríkisaðstoð, hvort við séum að brjóta á samkeppnisreglum, þannig ég myndi telja að skipulag á þessum lóðum myndi þurfa að bíða í svolítinn tíma á meðan við fáum svör við þessu.“


Tengdar fréttir

„Ódýrt“ að gera samningana tortryggilega

Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs og fyrrverandi borgarstjóri, segir ekkert tortryggilegt við samninga borgarinnar við olíufélögin um að greiða ekki innviðagjald eða byggingargjald á reitum þar sem borgaryfirvöld vilja að rísi íbúabyggð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×