Íslenski boltinn

Eina árið sem KR féll: Stjörnu­stríð, Elvis kvaddi og SÁÁ komið á fót

Sindri Sverrisson skrifar
Það var ýmislegt í gangi árið 1977 þegar KR féll úr efstu deild, í fyrsta og eina sinn. Miðað við gengi liðsins í sumar er næsta fall yfirvofandi.
Það var ýmislegt í gangi árið 1977 þegar KR féll úr efstu deild, í fyrsta og eina sinn. Miðað við gengi liðsins í sumar er næsta fall yfirvofandi. Samsett/Getty/Vísir

Taugar Vesturbæinga ættu með réttu að vera þandar nú þegar mögulegt er að KR falli úr Bestu deildinni á sunnudaginn. Það hefur bara einu sinni gerst frá því byrjað var að spila fótbolta hér á landi árið 1912 og KR vann sinn fyrsta af 27 Íslandsmeistaratitlum.

KR, sem hét reyndar Fótboltafélag Reykjavíkur þegar það vann fyrsta titilinn, er sigursælasta knattspyrnufélag landsins. Vissulega eru sex ár liðin frá síðasta Íslandsmeistaratitli, og þeir hafa bara verið tveir á síðustu tveimur áratugum, en það heyrir engu að síður til stórtíðinda að fall skuli blasa við KR-ingum.

KR er á botni Bestu deildarinnar með 25 stig, stigi á eftir Aftureldingu og þremur á eftir Vestra. Þess vegna er það þannig að ef að KR tapar gegn ÍBV á sunnudaginn, á sama tíma og Afturelding og Vestri mætast, þá fellur KR niður í Lengjudeildina.

KR-ingar verða hreinlega að vinna ÍBV (enn smávon með jafntefli ef Vestri vinnur ekki Aftureldingu) og svo Vestra í lokaumferðinni, til að eiga von um að halda sér uppi.

Tæplega hálf öld er síðan að KR féll úr efstu deild, í fyrsta og eina skiptið hingað til. Það var árið 1977 og eins og sjá má á þessum mjög svo handahófskennda lista er langt um liðið:

Hvað gerðist árið 1977?

  • Gefin voru tvö stig fyrir sigur í leikjum á Íslandsmótinu og því lauk í ágúst. KR endaði með 10 stig úr 18 leikjum, í næstneðsta sæti, fjórum á eftir Fram og átján á eftir Íslandsmeisturum ÍA. Þórsarar féllu einnig.
  • Ríkissjónvarpið var í fyrsta sinn með beina útsendingu í lit (þó ekki frá fótbolta).
  • Atari leikjatölvan kom á markað.
  • Kröflueldar voru í fullum gangi og urðu tvö eldgos þetta ár.
  • Frakkar unnu Eurovision þar sem með Marie Myriam söng lagið L'Oiseau et l'Enfant.
  • Kristján Eldjárn var forseti og Geir Hallgrímsson forsætisráðherra.
  • Kúluvarparinn Hreinn Halldórsson var valinn íþróttamaður ársins, eftir að hafa orðið Evrópumeistari innanhúss í San Sebastian á Spáni, þar sem hann kastaði 21,09 metra.
  • Elvis Presley gaf út sína síðustu plötu og lést svo mánuði síðar. Charlie Chaplin lést líka.
  • Michel Platini, Kevin Keegan og Allan Simonsen þóttu bestu fótboltamenn heims en Pelé lagði skóna á hilluna.
  • Samtök áhugafólks um áfengisvandamálið, SÁÁ, voru stofnuð á Íslandi.
  • Fyrsta Stjörnustríðsmyndin var frumsýnd.

Þegar KR féll hafði liðið þegar orðið Íslandsmeistari tuttugu sinnum en níu ár voru þá liðin frá síðasta titli. KR-ingar stöldruðu aðeins eitt ár við í næstefstu deild en þurftu að bíða fram til 1999 eftir næsta Íslandsmeistaratitli og leið því 31 ár á milli titla.

Leikur KR og ÍBV á sunnudaginn er í beinni útsendingu klukkan 14 á Sýn Sport Ísland. Á sama tíma er leikur Aftureldingar og Vestra í beinni útsendingu á Sýn Sport Ísland 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×