Lífið

Cillian mærir Kiljan

Eiður Þór Árnason skrifar
Cillian Murphy fékk BAFTA verðlaun fyrir hlutverk sitt sem Robert Oppenheimer.
Cillian Murphy fékk BAFTA verðlaun fyrir hlutverk sitt sem Robert Oppenheimer. Vianney Le Caer/Invision/AP

Írski stórleikarinn Cillian Murphy fær ekki nóg af Sjálfstæðu fólki eftir Nóbelsskáldið Halldór Kiljan Laxness og lýsir skáldsögunni sem meistaraverki.

Óskarsverðlaunahafinn sem er meðal annars þekktur fyrir hlutverk sín í bandarískum stórmyndum á borð við Oppenheimer og The Dark Knight ræddi bókina við bresku samfélagsmiðlastjörnuna Jack Edwards sem stýrir bókmenntamiðaða hlaðvarpinu Inklings Book Club.

Þar sat Murphy ásamt rithöfundinum og handritshöfundinum Max Porter en saman kynna þeir nú kvikmyndina Steve sem byggð er á skáldsögu hins síðarnefnda. Murphy fer með aðalhlutverkið í kvikmyndinni sem framleidd var fyrir Netflix og fjallar um stjórnanda skóla fyrir drengi sem glíma við félags- og hegðunarvanda.

Þykir verkið sláandi

Porter þekkir greinilega vel til Nóbelsskáldsins og hvatti Óskarsverðlaunahafann til að kynna sér verk hans.

„Hann mælti með magnaðri bók nýlega sem ég er hálfnaður með og þetta er meistaraverk,“ sagði Murphy um Sjálfstætt fólk.

„Ég las helminginn af henni um borð í flugvélinni á leiðinni yfir Atlantshafið og þetta er sláandi verk.“

Porter bætti við að hann vissi að Murphy þurfti yfirgripsmikið verk sem hann gæti sökkt sér í. „Ekki eitthvað yfirborðskennt eða brellulegt, þú þurftir almennilegt stórt meistaraverk.“

Þremenningarnir ræða skáldverkið í myndskeiði sem birt var á Instagram-síðu Edwards en hann er þekktur fyrir bókmenntaumfjöllun sína á miðlinum TikTok sem nær vel til ungs fólks. Í færslu með myndskeiðinu skrifar Edwards að hann þurfi nú sjálfur að lesa Sjálfstætt fólk.


Tengdar fréttir

„Sorg­legt“ ef börnin lesa ekki Lax­ness og Ís­lendingasögur

Menntamálaráðherra segist munu taka til skoðunar hvort framhaldsskólanemar séu í minna mæli en áður látnir lesa skáldsögur eftir Halldór Laxness og Íslendingasögur. Það sé hið sorglegasta mál ef satt reynist, en hann muni ekki gefast upp á að koma menntamálum í gott horf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.