Erlent

Andrés prins af­salar sér öllum titlum í kjöl­far á­sakana

Eiður Þór Árnason skrifar
Andrés prins mun ekki lengur bera titilinn hertoginn af York. 
Andrés prins mun ekki lengur bera titilinn hertoginn af York.  Getty/Steve Parsons

Andrés prins hefur afsalað sér öllum titlum og heiðursmerkjum, þeirra á meðal hertogatitlinum. Yfirlýsingin kemur í kjölfar umfjöllunar um vinskap hans við látna barnaníðinginn Jeffrey Epstein og meintan kínverskan njósnara.

Hann mun áfram vera prins í ljósi þess að hann er sonur Elísabetar II Bretlandsdrottningar. Sky News greinir frá þessu en talið er að Sarah Ferguson, fyrrverandi eiginkona hans, muni sömuleiðis hætta að vera titluð hertogaynjan af York.

„Í viðræðum við konunginn og nánustu fjölskyldu mína höfum við komist að þeirri niðurstöðu að áframhaldandi ásakanir um mig beina athyglinni frá starfi hans hátignar og konungsfjölskyldunnar,“ sagði Andrés prins í yfirlýsingu. 

„Ég hef ákveðið, líkt og ég hef alltaf gert, að setja skyldu mína gagnvart fjölskyldu minni og landi í fyrsta sæti. Ég stend við þá ákvörðun mína fyrir fimm árum að hætta að sinna opinberum störfum,“ bætir Andrés við.

„Með samþykki hans hátignar teljum við að ég verði nú að ganga skrefinu lengra. Ég mun því ekki lengur nota titil minn eða þau heiðursmerki sem mér hafa verið veitt.“

„Eins og ég hef áður sagt, þá neita ég staðfastlega ásökununum gegn mér.“

BBC greinir frá því að dætur Andrésar, Beatrice og Eugenie, muni halda sínum titlum og Andrés muni ekki eyða jólunum með konungsfjölskyldunni í Sandringham. Samt sem áður er búist við að hann muni áfram búa á heimili sínu Royal Lodge í Windsor þar sem hann sé með leigusamning til ársins 2078.

Sendi pósta á Epstein

Aukinn þrýstingur hefur verið á Andrés prins eftir að fleiri fréttir komu fram um samband hans við barnaníðinginn Jeffrey Epstein og samband hans við meintan kínverskan njósnara.

Andrés hefur verið gagnrýndur harðlega vegna tengsla sinna við kynferðisbrotamanninn og hafa ríkt spurningar um hvenær hann hafi í raun slitið samskiptum við hann.

Sjá einnig: Ítar­legar frá­sagnir af kynnum við „Andy“ í nýrri bók Giuffre

Í frægu viðtali við BBC Newsnight sagði Andrés að hann hefði slitið á öll tengsl við Epstein eftir að þeir voru myndaðir saman í New York í desember 2010. Þrátt fyrir þetta hafa komið fram tölvupóstar sem sendir voru mánuðum síðar og benda til þess að þeir hafi haldið tengslum. „Vertu í nánu sambandi og við munum leika okkur meira fljótlega!“ sagði til að mynda í einum þeirra.

Njósnari sagður trúnaðarvinur

Fram kom í lok síðasta árs að hálfleynilegur öryggisdómstóll í Bretlandi hafi bannað kínverskum viðskiptamanni að snúa aftur til landsins á grundvelli þjóðaröryggishagsmuna. Manninum hefur verið lýst sem trúnaðarvini Andrésar og hann sakaður um að vera kínverskur njósnari. Andrés prins sagði eftir úrskurðinn að hann hafi hætt samskiptum við manninn að ráðgjöf breskra ráðamanna og staðhæfði að þeir hefðu aldrei rætt viðkvæm málefni.

Prinsinn hefur einnig verið sakaður um að hafa misnotað hina 38 ára gömlu Virginu Giuffre þegar hún var táningur. Prinsinn hefur ávallt neitað sök í málinu.

Giuffre kærði Andrés prins fyrir nauðgun og sakaði Andrés um að hafa brotið á sér í íbúð Ghislaine Maxwell, sem var náin samstarfskona Jeffrey Epstein. Hún sakaði einnig Epstein um að hafa ítrekað brotið á sér. 

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Andrés semur við Giuffre

Andrés prins hefur gert samkomulag við Virginiu Giuffre, sem hefur sakað hann um að misnota sig kynferðislega þegar hún var sautján ára gömul. Giuffre segist hafa verið fórnarlamb mannsals og segir Andrés hafa nauðgað sér þrisvar sinnum á heimilum auðjöfursins og barnaníðingsins Jeffrey Epstein.

Andrés prins kærður fyrir nauðgun

Andrés prins, sonur Elísabetar Englandsdrottningar, hefur verið kærður fyrir kynferðisofbeldi. Kærandi í málinu er Virginia Giuffre, sem segir brot Andrésar gegn sér hafa átt sér stað þegar hún var sautján ára gömul.

Andrés prins hættir opinberum störfum

Elísabet II Bretlandsdrottning hefur samþykkt ósk Andrésar prins um að hann hætti að sinna skyldum sínum fyrir konungsfjölskylduna um ófyrirsjáanlega framtíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×