Viðskipti innlent

Selja Adalvo og stjórnandi frá Alvotech fylgir

Árni Sæberg skrifar
Róbert Wessmann, stofnandi og stjórnarformaður Alvotech.
Róbert Wessmann, stofnandi og stjórnarformaður Alvotech. Vísir/Vilhelm

Eignarhaldsfélagið Aztiq hefur lokið við sölu á lyfjafyrirtækinu Adalvo til alþjóðlega fjárfestingarfélagsins EQT. Á sama tíma lætur framkvæmdastjóri Alvotech af störfum og færir sig yfir til Adalvo. Stærsti eigandi Alvotech er Aztiq.

Í fréttatilkynningu frá Aztiq segir að félagið hafi stofnað Adalvo árið 2018, en félagið hafi milligöngu um samninga milli lyfjafyrirtækja varðandi skráningu og markaðssetningu samheitalyfja. Adalvo vinni með fleiri en 170 lyfjafyrirtækjum í 140 löndum um allan heim og hjá því starfi um 280 manns.

„Ég er gríðarlega ánægður með þessi viðskipti og hlakka til samstarfsins við EQT, sem minnihlutaeigandi í Adalvo. Stjórnendur Adalvo hafa náð frábærum árangri á undanförnum árum. Ég er sannfærður um að vaxtartækifæri á þessum markaði séu mörg og Adalvo eigi mjög spennandi framtíð fyrir höndum,“ er haft eftir Róberti Wessman, stofnanda og stjórnarformanni Aztiq.

Okay fylgir

Í fréttatilkynningu frá Alvotech er greint frá skipulagsbreytingum á viðskiptasviðið félagsins.

Anil Okay framkvæmdastjóri viðskiptasviðs láti af störfum og verði forstjóri áðurnefnds Adalvo. Leiðtogar á viðskiptasviði félagsins verði Trisha Durant, sem sé yfirmaður viðskipta og samstarfsverkefna utan Norður-Ameríku, Harshika Sarbajna, sem sé yfirmaður viðskipta og samstarfsverkefna í Norður-Ameríku og Agne Pasko, sem sé forstöðumaður í viðskiptaþróun.

„Ég vil þakka Anil fyrir frábæran árangur við að leiða viðskiptaþróun og markaðsstarf Alvotech á undanförnum árum. Það eru sjö ár síðan við stofnuðum Adalvo og gott að vita að félagið sem er mér kært verði áfram í góðum höndum. Alvotech býr að frábæru leiðtogateymi á viðskiptasviði, Trishu sem gekk nýlega til liðs við félagið, Harshiku og Agne. Ég treysti þeim fyllilega til að viðhalda velgengni félagsins í markaðsmálum og viðskiptaþróun,“ er haft eftir Róberti Wessman, sem er forstjóri og stjórnarformaður Alvotech.

Frá vinstri: Agne Pasko, Harshika Sarbajna og Trisha Durant. Alvotech/Vísir





Fleiri fréttir

Sjá meira


×