Van de Ven með tvö í fyrsta tapinu á nýja heima­vellinum

Sindri Sverrisson skrifar
Micky van de Ven var maður leiksins í dag, með tvö mörk og í vörn sem hélt hreinu.
Micky van de Ven var maður leiksins í dag, með tvö mörk og í vörn sem hélt hreinu. Getty/Carl Recine

Tottenham vann öruggan 3-0 útisigur gegn Everton þegar liðin mættust í lokaleik 9. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu, á Hill Dickinson vellinum í Liverpool. Þetta var fyrsta tap Everton á nýja heimavellinum.

Miðvörðurinn Micky van de Ven kom gestunum yfir á 19. mínútu eftir hornspyrnu Mohammed Kudus og skallasendingu Rodrigo Bentancur.

Jake O'Brien virtist hafa jafnað metin skömmu síðar, með skalla eftir hornspyrnu, en eftir skoðun á myndbandi var markið dæmt af þar sem að Iliman Ndiaye var rangstæður og hafði áhrif á Guglielmo Vicaroi, markvörð Tottenham.

Tottenham náði hins vegar að auka muninn í 2-0 rétt fyrir lok fyrri hálfleiks þegar Van de Ven skoraði aftur eftir hornspyrnu, í þetta sinn eftir spyrnu Bentancur.

Þriðja markið kom svo undir lok leiks þegar Pedro Porro átti sendingu af hægri kantinum á Richarlison sem skallaði á Pape Matar Sarr sem skoraði.

Tottenham er þar með í 3. sæti með 17 stig, fimm stigum á eftir toppliði Arsenal og stigi á eftir Bournemouth. Everton er hins vegar með 11 stig í 14. sæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira