Veður

Djúp lægð nálgast landið úr suðri

Atli Ísleifsson skrifar
Snemma í fyrramálið má búast við allt að 28 m/s á Suðausturlandi, en annars 13-20.
Snemma í fyrramálið má búast við allt að 28 m/s á Suðausturlandi, en annars 13-20. Vísir/Anton

Dálítill éljagangur verður á norðurhluta landsins fram undir hádegi í dag og samhliða því má búast má við lélegu skyggni og erfiðum aksturskilyrðum, einkum á fjallvegum, á Norðausturlandi.

Á vef Veðurstofunnar segir að annars sé hægari vindur í öðrum landshlutum, en snjókoma með köflum á Suðaustur- og Austurlandi. Þurrt verður að mestu suðvestantil.

„Í kvöld nálgast djúp lægð landið úr suðri sem veldur norðaustlægum áttum á öllu landinu.

Snemma í fyrramálið má búast við allt að 28 m/s á Suðausturlandi, en annars 13-20. Dregur úr vindi suðaustantil síðdegis á morgun, en allt að 25 m/s norðvestan og vestantil annað kvöld.

Lægðinni fylgir fremur hlýtt loft og því má búast við talsvert mikilli úrkomu víða um land, fyrst sem snjókoma eða slydda en síðar er útlit fyrir rigningu, einkum sunnan- og austantil. Þar sem mikill snjór hefur fallið síðustu daga má búast við töluverðri hláku og er fólk hvatt til að hreinsa frá niðurföllum,“ segir í tilkynningunni.

Spákort fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag: Gengur í norðaustan 13-20 m/s, en 20-28 suðaustanlands fram eftir degi. Bætir í vind norðvestast síðdegis. Rigning eða slydda með köflum, en talsverð rigning austantil og á Ströndum. Hlýnandi veður, hiti 2 til 8 stig seinnipartinn.

Á laugardag: Austan og norðaustan 8-15, en hvassviðri norðvestantil. Rigning eða slydda með köflum, snjókoma og skafrenningur á Vestfjörðum, en talsverð rigning suðvestantil. Hiti 1 til 9 stig, mildast sunnanlands.

Á sunnudag: Norðaustan 8-15 norðvestantil, en annars hægari. Víða snjókoma eða slydda, einkum á norðvestanverðu landinu. Hiti 0 til 8 stig, mildast syðst.

Á mánudag: Norðaustlæg átt og víða rigning eða slydda en snjókoma norðvestantil. Hiti 1-8 stig, mildast syðst.

Á þriðjudag: Útlit fyrir suðlæga eða breytileg átt og víða rigning eða slydda, einkum sunnantil. Hiti breytist lítið.

Á miðvikudag: Útlit fyrir áframhaldandi suðlægar áttir með slyddu eða snjókomu, en þurrt að mestu austantil. Heldur svalara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×