Handbolti

Forðuðu sér frá bráð­smitandi ó­léttu í Fram

Sindri Sverrisson skrifar
Fimm leikmanna Fram frá síðustu leiktíð hafa ýmist átt barn á þessu ári eða eru barnshafandi. Þar á meðal er landsliðsfyrirliðinn fyrrverandi Karen Knútsdóttir sem lagt hefur skóna á hilluna.
Fimm leikmanna Fram frá síðustu leiktíð hafa ýmist átt barn á þessu ári eða eru barnshafandi. Þar á meðal er landsliðsfyrirliðinn fyrrverandi Karen Knútsdóttir sem lagt hefur skóna á hilluna. Samsett/Vilhelm/@framkisur

Mikið barnalán hefur einkennt kvennalið Fram í handbolta undanfarið og leikmenn liðsins grínuðust með þetta í skemmtilegu myndbandi á Instagram.

Myndbandið má sjá hér að neðan en í því eru fimm leikmenn sem spilað hafa með Fram á síðustu árum en eru ýmist hættar eða hafa nú tekið sér hlé vegna barneigna.

Leikmennirnir sem barnalánið leikur við eru þær Karen Knútsdóttir, Steinunn Björnsdóttir, Kristrún Steinþórsdóttir, Svala Júlía Gunnarsdóttir og Erna Guðlaug Gunnarsdóttir.

Karen og Steinunn hafa báðar gefið út að handboltaskórnir séu komnir á hilluna en ekki er annað vitað en að Kristrún, Svala Júlía og Erna Guðlaug snúi aftur á parketið við fyrsta tækifæri. Svala Júlía og Karen eru þegar búnar að eiga og það styttist í að þriðja barn Steinunnar mæti í heiminn en eftir fyrri tvær meðgöngur var hún ótrúlega fljót að snúa aftur til æfinga og keppni.

Í myndbandinu að ofan hlaupa aðrir leikmenn Fram í burtu af „ótta“ við að smitast í þessum mikla óléttufaraldri hjá liðinu, og ljóst að það er ekki langt í grínið hjá Frömurum þó að gengið í Olís-deildinni í vetur hafi kannski ekki verið eins og þær eru vanar. Liðið er þar með fimm stig eftir sjö umferðir, í 6. sæti, eftir að hafa orðið í 2. sæti deildarinnar á síðustu leiktíð og dottið út í undanúrslitum gegn Haukum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×