Innlent

Ís­lenskum full­trúum á lofts­lags­ráð­stefnu hríðfækkar milli ára

Kjartan Kjartansson skrifar
Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, sækir seinni viku COP30-ráðstefnunnar í Belém í Brasilíu síðar í þessum mánuði.
Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, sækir seinni viku COP30-ráðstefnunnar í Belém í Brasilíu síðar í þessum mánuði. Vísir

Sextán þátttakendur frá Íslandi eru skráðir til þátttöku á COP30-loftslagsráðstefnunni sem fer fram í Brasilíu, þar af sjö manna opinber sendinefnd. Íslenskum þáttakendum fækkar gríðarlega frá fyrri ráðstefnum.

COP30-ráðstefnan hefst í Belém í Brasilíu mánudaginn 10. nóvemer og stendur í tvær vikur. Rúmlega 190 ríki senda fulltrúa þangað. 

Ráðstefnan er haldin í skugga minnkandi áherslu ríkja heims á aðgerðir gegn loftslagsbreytingum af völdum manna. Þannig skiluðu tvö af hverjum þremur ríkjum ekki inn uppfærðum markmiðum áður en frestur til þess rann út í september þrátt fyrir að þau hefðu skuldbundið sig til þess með Parísarsamkomulaginu árið 2015.

Til marks um þennan minnkandi áhuga á loftslagsmálum telja þátttakendur frá Íslandi nú aðeins sextán manns. Þeir voru 48 í Aserbaídsjan í fyrra og 84 í Dúbaí árið 2023, tvöfalt fleiri en árið 2022.

Opinbera sendinefnd Íslands á ráðstefnunni er skipuð fjórum fulltrúum umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, tveimur frá utanríkisráðuneytinu auk ungmennafulltrúa frá samtökunum Ungum umhverfissinnum. 

Umhverfisráðuneytið styrkir ungmennafulltrúann til þátttöku á ráðstefnunni. Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Vísis segir að hefð hafi skapast fyrir því á undanförnum árum að ungmennafulltrúinn sé hluti af opinberu sendinefndinni.

Jóhann Páll ráðherra sækir seinni viku ráðstefnunnar ásamt aðstoðarmanni, að því er segir í svari umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins við fyrirspurn Vísis. Þar með hann eiga tvíhliða fundi með öðrum ráðherrum og leiðtogum alþjóðastofnana og taka þátt í málstofum.

Þrír þingmenn úr tveimur flokkum

Til viðbótar við opinberu sendinefnd stjórnvalda taka þrír þingmenn úr tveimur flokkum þátt í ráðstefnunni. Það eru þau Ása Berglind Hjálmarsdóttir og Víðir Reynisson frá Samfylkingunni og Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. Alþjóðafulltrúi af skrifstofu Alþingi ferðast einnig til Brasilíu.

Fimm íslenskir þátttakendur á ráðstefnunni koma frá Loftslagsráði, Landvernd, Landsvirkjun og tveir frá Grænvangi, samstarfsvettvangi atvinnulífs og stjórnvalda í loftslagsmálum. Fulltrúa Grænvangs og Landsvirkjunar eiga einnig sæti í viðskiptasendinefnd fyrirtækja á sviði loftslags- og orkumála.

Þingmennirnir þrír sem sækja COP30, frá vinstri: Sigurður Ingi Jóhannsson, Víðir Reynisson og Ása Berglind Hjálmarsdóttir.Vísir

Átta erlendir, ungir vísindamenn eru skráðir á ráðstefnuna í gegnum Ísland en koma ekki fram í nafni landsins. Þeir eru á vegum alþjóðlegs loftslagsverkefnis um verndun freðhvolfs jarðar (ICCI) en Ísland og Síle fara saman með formennsku í átakinu.

Bandaríkin senda engan hátt settan fulltrúa

Framlög auðugara þjóða sem bera mesta ábyrgð á þeirri losun gróðurhúsalofttegunda sem veldur loftslagsbreytingum til snauðari ríkja sem er sérstaklega ógnað vegna hlýnunar eru á dagskrá ráðstefnunnar í Brasilíu í næstu viku.

Þá er búist við að ríki kynni uppfærðar landsáætlanir um hvernig þau ætla að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Takmarkaðar vonir eru bundnar við að árangur náist á fundinum. Bandaríkjastjórn, sem er skipuð repúblikönum sem hafna vísindalegri þekkingu á orsökum og afleiðingum loftslagsbreytinga, ætlar ekki að senda neina háttsetta fulltrúa til Brasilíu.

Fulltrúar Bandaríkjastjórnar beitti erindreka annarra ríkja gríðarlegum þrýstingi til þess að stöðva hertar losunarreglur fyrir stórskipasiglningar á alþjóðlegri ráðstefnu í síðasta mánuði. Þeir eru meðal annars hafa hótað viðsemjendum sínum persónulegum refsiaðgerðum ef þeir beygðu sig ekki í duftið.

Markmið Parísarsamkomulagsins er að takmarka hnattræna hlýnun við tvær gráður á þessari öld og allra helst 1,5 gráður til að forðast megi alvarlegustu afleiðingar hnattrænnar hlýnunar. Miðað við núverandi losun mannkynsins stefnir í að hlýnunin verði þær 2,5 til þremur gráðum.

Opinbera sendinefnd Íslands á COP30-ráðstefnunni:

  • Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra
  • Helga Barðadóttir, formaður íslensku sendinefndarinnar frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu
  • Jóna Þórey Pétursdóttir, aðstoðarmaður umhverfis,- orku- og loftslagsráðherra
  • Elín Björn Jónasdóttir, sviðsstjóri loftslags- og náttúrusviðs umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins
  • María Erla Marelsdóttir, loftslagssendiherra frá utanríkisráðuneytinu
  • Guðrún Þorsteinsdóttir, ráðgjafi frá utanríkisráðuneytinu
  • Laura Sólveig Lefort Scheefer, forseti Ungra umhverfissinna

Aðrir íslenskir þátttakendur:

  • Ása Berglind Hjálmarsdóttir, þingmaður
  • Guðmundur Víðir Reynisson, þingmaður
  • Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður
  • Arna Bang, sérfræðingur á alþjóðadeild nefndasviðs Alþingis
  • Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri Loftslagsráðs
  • Þorgerður M. Þorbjarnardóttir, formaður Landverndar
  • Viktoría Alfreðsdóttir, verkefnastjóri hjá Grænvangi
  • Nótt Thorberg Bergsdóttir, forstöðumaður Grænvangs
  • Jóhanna Hlín Auðunsdóttir, forstöðumaður loftslags og umhverfis hjá Landsvirkjun



Fleiri fréttir

Sjá meira


×