Fótbolti

Vegg­mynd af Alexander-Arnold skemmd: „Bless, rotta“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Unnin voru skemmdarverk á veggmynd af Trent Alexander-Arnold.
Unnin voru skemmdarverk á veggmynd af Trent Alexander-Arnold.

Trent Alexander-Arnold snýr í kvöld aftur á Anfield í fyrsta sinn eftir vistaskiptin frá Liverpool til Real Madrid. Búist er við því að hann fái óblíðar móttökur en búið er að skemma veggmynd af honum í Liverpool.

Á veggmyndinni sést Alexander-Arnold eftir sigur Liverpool á Tottenham í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu 2019. „Ég er bara venjulegur strákur frá Liverpool, hvers draumur hefur ræst,“ stendur á veggmyndinni.

Búið er að skvetta hvítri málningu á veggmyndina og skrifa Adios El Rata, eða Bless, rotta, á hana.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem skemmdarverk eru unnin á veggmyndinni en það var einnig gert fyrir leik gegn Everton 2022 og fyrir síðasta leik Alexander-Arnolds fyrir Liverpool í vor.

Stuðningsmenn Liverpool eru margir hverjir ósáttir við aðdraganda félagaskipta Alexander-Arnolds og búast má við því að einhverjir láti hann heyra það þegar hann snýr aftur á Anfield í kvöld.

Liverpool er með sex stig í 10. sæti Meistaradeildarinnar en Real Madrid með níu stig í 5. sætinu.

Alexander-Arnold hefur ekki spilað fyrir Real Madrid síðan 16. september vegna meiðsla en búist er við því að hann verði til taks á varamannabekknum í kvöld.

Leikur Liverpool og Real Madrid hefst klukkan 20:00 og verður sýndur beint á Sýn Sport Viaplay.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×