Lífið

Finnur fyrir skoðunum fólks á aldursmuninum

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Nicole sagði skilið við ameríska drauminn, fylgdi hjartanu og flutti til Íslands, þrátt fyrir mótbárur fjölskyldu og vina heima í Bandaríkjunum.
Nicole sagði skilið við ameríska drauminn, fylgdi hjartanu og flutti til Íslands, þrátt fyrir mótbárur fjölskyldu og vina heima í Bandaríkjunum.

Þegar hin bandaríska Nicole Zodhi fór í tíu daga ferðalag til Íslands árið 2010 átti hún allra síst von á að verða ástfangin af landinu, fólkinu og, óvænt, af íslenska leiðsögumanninum sínum, Einari Þór Jóhannssyni. Hún sneri lífi sínu á hvolf, sagði skilið við lífið sem viðskiptafræðingur í Washington-borg og elti ástina alla leið til Íslands. Í dag, fjórum árum síðar, er hún orðin hestabóndi á Suðurlandi og hefur slegið í gegn á samfélagsmiðlum.

Nicole var ekkert sérstaklega spennt fyrir því að ferðast til Íslands í fyrstu en þar sem að móður hennar hafði alltaf dreymt um að heimsækja landið þá ákvað Nicole að gefa henni Íslandsferð í mæðradagsgjöf. 

Þær komu til Íslands í ágúst 2021 og Nicole féll strax kylliflöt fyrir landinu og náttúrunni. Mæðgurnar höfðu bókað Einar sem einkaleiðsögumann.

Fyrstu kynni Nicole og Einars voru eins og úr rómantískri Hollywood-kvikmynd. „Hann birtist í anddyrinu á hótelinu og sagði: Hæ, ég heiti Einar. Ég er leiðsögumaðurinn ykkar næstu daga,“ rifjar Nicole upp í samtali við Ísland í dag.

Kysstust og urðu að pari við Jökulsárlón

Í lok ferðarinnar skildu mæðgurnar eftir þjórfé handa Einari og þá notaði Nicole tækifærið og laumaði upprúlluðum miða með símanúmerinu sínu inn í einn peningaseðilinn. 

Nokkrum klukkustundum síðar fékk hún skilaboð frá Einari sem innihéldu orðin „Hæ“ og broskall. Eftir það var ekki aftur snúið. Eftir nokkra mánuði af skilaboðum fram og til baka sneri Nicole aftur til Íslands.

„Hann sótti mig klukkan fimm um morguninn og keyrði sex klukkustundir samfleytt að Jökulsárlóni,“ sagði hún. 

„Þar kyssti hann mig – og þar urðum við par.“

Þrátt fyrir 23 ára aldursmun og heilt Atlantshaf sem skildi þau að þá ákváðu þau að láta þetta ganga. „Ég vil ekki þekkja heim án þín,“ sagði Nicole við hann. „Þegar maður veit það, þá veit maður það,“ svaraði Einar.

Gift með fimmtíu hesta

Nicole rak á þessum tíma eigið fyrirtæki í matvælaiðnaðinum í Washington-borg en var að eigin sögn orðin þreytt, útbrunnin og ekki sátt við staðinn sem hún var á í lífinu. Ákvörðunin um að snúa lífinu á hvolf og elta ástina til Íslands var auðveld en erfið á sama tíma. 

Þau trúlofuðu sig í september árið 2023, en vinir og fjölskylda Nicole voru ekki öll hrifin af ráðahagnum, ekki síst þar sem Einar bjó á Íslandi og átti þar að auki fjögur börn af fyrra sambandi.

En ástin sigraði. Parið gifti sig í fyrrasumar í Garðabæjarkirkju og þau búa nú nálægt Selfossi, á 120 hektara jörð ásamt fimmtíu hestum. 

Einar, sem er þaulvanur hestamaður, kynnti Nicole fyrir sveitalífinu. Hún hafði enga reynslu af hestum áður en núna reka þau saman ferðaþjónustufyrirtækið Thor Hestar, sem býður upp á reiðtúra um íslenska náttúru. 

„Hún er náttúrutalent,“ segir Einar stoltur. „Hún hefur þetta bara í sér.“

Kynnir fólk fyrir Íslandi

Fyrir tæplega einu og hálfu ári byrjaði Nicole að sýna og segja frá lífi sínu á Instagram undir nafninu Nicole in Iceland. Það hefur undið verulega upp á sig og í dag er hún með hátt í fjörutíu þúsund fylgjendur á miðlum sínum.

Í myndskeiðunum á Instagram hefur Nicole meðal annars talað um menningarmismuninn á Íslandi og Bandaríkjunum og hún hefur líka komið inn á hvernig það er að eiga maka sem alinn er upp við aðra menningu, viðhorf og tungumál.

Hún fær reglulega spurningar frá erlendum fylgjendum sem vilja vita hvernig það er að búa á Íslandi eða eru að leitast eftir ráðleggingum fyrir ferðalög til Íslands. 

„Eina skiptið á ævinni þar sem ég fylgdi hjartanu, en ekki höfðinu“

Ástarsaga hennar og Einars hefur einnig vakið athygli og þá sérstaklega sú staðreynd að meira en tveir áratugir eru á milli þeirra í aldri. Ófáir hafa lýst yfir skoðun sinni á því og Nicole hefur til að mynda verið spurð hvað hún ætli að gera þegar þau eru orðin eldri, hvort hún ætli þá að fara að hugsa um Einar í ellinni.

„Þegar öllu er á botninn hvolft, þá gæti eitthvað komið fyrir annað hvort okkar. Það gæti allt eins endað þannig að hann þyrfti að hugsa um mig. En ég hef íhugað hvernig framtíðin myndi líta út ef ekkert slæmt gerðist og við myndum bara eldast saman. Ég veit að ég kem til með að annast hann að einhverju leyti, og það er í lagi mín vegna. Ég elska hann.“

Nicole sér svo sannarlega ekki eftir því að hafa hlustað á sína innri rödd og flutt til Íslands fyrir stóru ástina í lífi sínu.

„Það að elta Einar til Íslands var líklega eina skiptið á ævinni þar sem ég fylgdi hjartanu, en ekki höfðinu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.