Viðskipti innlent

Ætlað að verða nýtt ís­lenskt kenni­leiti á heims­mæli­kvarða

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Fyrirhuguð staðsetning hótels og veitingaþjónustu á skógarsvæði, horft í norðvesturátt. Í bakgrunni má sjá tungu Hoffelsjökuls.
Fyrirhuguð staðsetning hótels og veitingaþjónustu á skógarsvæði, horft í norðvesturátt. Í bakgrunni má sjá tungu Hoffelsjökuls. Efla verkfræðistofa

Nýr baðstaður og hótel Bláa lónsins við Hoffellsslón og Hoffellsjökul á Suðausturlandi á að vera bygging á heimsmælikvarða og er ætlað að verða nýtt kennileiti í ferðaþjónustu Íslands og munu færustu hönnuðir verða fengnir til þess að hanna staðinn. Gestir eiga að geta upplifað allt í senn; heitar laugar, Hoffellsjökul, Hoffellslón og Vatnajökul.

Þetta kemur fram í matsáætlun sem lögð hefur verið fram til kynningar. Til stendur að reisa allt að 120 herbergja hótel á skógræktarsvæði sem og baðlón með búningsklefum, stunda veitingarekstur og bjóða jöklasýningu við Hoffellslón. Gert er ráð fyrir því að framkvæmdir hefjist 2026 og að baðstaður opni 2028. Hóteluppbygging hefjist 2027 og ljúki 2029 eða 2030.

Fyrstu fréttir sem bárust af verkefninu birtust sumarið 2024 þegar greint var frá því að Bláa lónið hefði fest kaup á jörðinni Hoffell 2 í Austur-Skaftafellssýslu. Fram kom í fréttatilkynningu frá Bláa lóninu að markmiðið væri að móta einstakan stað fyrir ferðamenn, við rætur Hoffellsjökuls og skapa segul sem styrki Suðausturland sem áfangastað ferðamanna.

Gestastofa, sýningarhald og fræðsla

Í matsáætluninni kemur fram að hönnun standi nú yfir og að verkefnið muni þróast samhliða vinnu við mat á umhverfisáætlun. Uppbyggingin muni fara fram á tveimur svæðum innan framkvæmdasvæðisins. Á skógræktarsvæði verði eins og áður segir byggð upp hótelgisting og veitingaþjónusta.

Böðin við Hoffellslón eigi svo að verða einstakur baðstaður upp við lónið. Þar verði bygging sem felld verði inn í landslagið eins og best verði á kosið og færustu hönnuðir fengnir til hönnunarinnar. Tekið er fram að böðin verði opin almenningi og gert ráð fyrir allt að 1500 gestum á dag. 

Horft í norðurátt í átt að Hoffellsjökli og Hoffellslóni frá jökulgarðinum. Efla verkfræðistofa

Gerð verði krafa um vandað útlit mannvirkja og lóðar og gæta skuli samræmis í heildaryfirbragði bygginga á svæðinu. Í byggingunni verði móttaka, sýningarhald, verslun, almenn veitingaþjónusta, baðlaugar og búningsklefar með 400 til 600 skápum. 

Einnig eigi að vera þar gestastofa með sýningarhaldi og fræðslu um Hoffellssvæðið og Hoffellsjökul. Fyrirhugað sé að vera með fræðslusýningu um jökla, rénun þeirra og loftlagstengdum málefnum því tengdu.

Staðsetning og umfang mannvirkis við jökulgarð. Svæðið sem afmarkað er með bláu táknar það svæði sem talið er fara undir mannvirki, lón og landmótun tengda framkvæmdinni. Hvíta punktalínan sýnir hvernig fyrirhuguð stærð og umfang mannvirkis gæti verið. Frekari hönnun fari fram eftir jarðvegsrannsóknir. Efla verkfræðistofa

Óvíst hvernig hönnun lónsins verður

Bygging baðlónsins sjálf sé svo fyrirhuguð norðan megin við jökulgarðinn til þess að halda bæði ásýnd inn dalinn óskertu ásamt því að gestir fái að njóta útsýnis yfir jökulinn og jökullónið. Til skoðunar sé að nota þak byggingarinnar sem útsýnispall fyrir alla sem leggi leið sína inn í dalinn. Hótelið verði þrjár til fjórar hæðir og muni geta tekið við allt að 240 gestum.

Þannig eigi jafnframt að tryggja og betrumbæta aðgengi fólks sem ekki eru gestir baðlónsis til að sem flestir geti áfram notið þess sem svæðið hafi upp á að bjóða. Þá kemur fram að nákvæm staðsetning baðlónsins innan jökulgarðsins og útfærsla mannvirkisins liggi ekki fyrir á þessu stigi.

Þau atriði ráðist af niðurstöðum jarðtæknirannsókna sem fyrirhugaðar séu í lok þessa árs. Rannsóknirnar fela í sér jarðfræðiboranir sem miði að því að greina jarðlög og meta fýsileika þess að reisa mannvirki á svæðinu. Vegna þeirrar óvissu sé eki hægt að leggja fram myndir eða nákvæma lýsingu á útliti og hönnun baðlónsins að svo stöddu.

Framkvæmdasvæði Hoffells ásamt svæðaskiptingu. Efla verkfræðistofa

Hægt að baða sig inni og úti

Þá segir að rík áhersla verði lögð á að bygging sé falin frá aðkomuleið að lóninu, sem sé eftir vegi sem lagður var á fjórða áratug síðustu aldar. Það verði gert til þess að halda útsýni að jökulgarðinum og jöklinum frá jökulaurum óskertu.

Bílastæði verði staðsett við jökulgarðinn sem muni þá þjónusta bæði baðstaðinn sem og almenna gesti þjóðgarðsins. Baðstaðurinn verði staðsettur nálægt mörkum þjóðgarðsins, þannig geti gestir þjóðgarðsins sem ekki hyggist í bað einnig notið veitingaþjónustu og jöklasýningar í byggingunni við Hoffelsslón.

Fyrirhugað er að staðsetja baðlón, veitingaþjónustu og gestastofu við jökulgarðinn. Á myndinni er horft til norðurs frá jökulgarðinum og má sjá tungu jökulsins, Hoffellslón til vinstri og Geitafellsbjörg til hægri. Efla verkfræðistofa

Segir að við nánari útfærslu á baðstað, bílastæði, stígum og öðrum framkvæmdaþáttum í grennd við mörk þjóðgarðsins verði haft samráð við Vatnajökulsþjóðgarð. Þess er einnig getið að landslagið við jökulgarðinn sé í sífelldri mótun í kringum ölduna og vistkerfið viðkvæmt. Því gefi auga leið að stíga þurfi varlega til jarðar og styðjast við gögn frá jarðfræðingum og verkfræðingum til að tryggja lágmarksrask fyrir byggingu af slíku tagi á vistkerfi, landslag og útsýni.

Unnin hafi verið skýrsla til að kortleggja jarðmyndanir og möguleg merki á yfirborð ium hreyfingu, skilgreina viðkvæm svæði og hreyfingu jökulsins. Þar sem allra veðra sé von sé fyrirhugað að baðlónið geti verið bæði innandyra og utandyra og mótað á þann hátt að gestir geti leitað skjóls frá veðri eða notið sólarljóss ef svo ber undir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×