Fótbolti

Alexandra lagði upp og María fór á kostum í Íslendingaslag

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Alexandra og María komu báðar mikið við sögu í Íslendingaslagnum í Svíþjóð.
Alexandra og María komu báðar mikið við sögu í Íslendingaslagnum í Svíþjóð.

Íslendingaliðin Linköping og Kristianstad mættust í 25. umferð sænsku úrvalsdeildar kvenna í fótbolta. Alexandra Jóhannsdóttir lagði upp mark en María Catharina Ólafsdóttir Gros gerði gott betur. 

Alexandra var á miðjunni hjá Kristianstad með Elísu Lönu Sigurjónsdóttur á vinstri vængnum. Hinum megin var svo María Catharina ein af tveimur framherjum Linköping.

Alexandra lagði opnunarmark leiksins upp fyrir Mathilde Janzen og Alice Nilsson tvöfaldaði forystuna fyrir Kristianstad skömmu síðar.

María minnkaði hins vegar muninn og staðan í hálfleik var 2-1. Linköping náði svo að jafna leikinn 2-2 þegar Lisa Björk setti boltann í netið eftir stoðsendingu Maríu. 

Alexandra og Elísa voru svo teknar af velli skömmu síðar þegar Kristianstad reyndi að hrista upp í sóknarleiknum og sækja sigurinn sem þær höfðu misst úr höndum sér.

Leikurinn varð spennandi á lokamínútunum en 2-2 jafntefli varð niðurstaðan. Stigið er mun dýrmætara fyrir Linköping, sem lenti undir í leiknum og situr í fallsæti.

Leikmenn Kristianstad, sem sitja í 6. sæti deildarinnar, munu hins vegar eflaust ganga ósáttir með aðeins eitt stig úr þessum leik, en ekkert alltof ósáttir því liðið hafði tapað þremur leikjum í röð fyrir þennan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×