Skoðun

109 milljarða kostnaður sem fyrir­tækin greiða ekki

Sigurpáll Ingibergsson skrifar

Á sama tíma og heimsleiðtogar funda á COP30 í Brasilíu situr Ísland uppi með óþægilegan veruleika: losunarfrekustu fyrirtækin landsins greiða aðeins brot af þeim raunverulega samfélagslega kostnaði sem þau valda.

Samkvæmt nýjum útreikningum Loftslagsvísi Hellnaskers er samfélagslegur kostnaður kolefnis — það tjón sem eitt tonn af CO₂ veldur samfélögum um allan heim — 109 milljarðar króna á ári vegna losunar þessara fyrirtækja.

Fyrirtækin greiða að hluta fyrir losun sína í gegnum ETS. En ETS-verð er langt undir raunverulegum skaða samkvæmt nýjustu vísindum, og mengunarbótaregla er ekki virkjuð gagnvart loftslagslosun á Íslandi.

Afgangurinn lendir því á samfélaginu — ekki þeim sem valda losuninni.

Hvað er samfélagslegur kostnaður kolefnis

Samfélagslegur kostnaður kolefnis (e. Social Cost of Carbon (SCC) er mat á því heildartjóni sem eitt viðbótartonn af CO₂ veldur — beint og óbeint — fyrir samfélög um allan heim. Mælikvarðinn er notaður af ríkisstjórnum og alþjóðastofnunum til að meta raunveruleg áhrif ákvarðana þegar loftslagsáhrif eru tekin með í reikninginn.

Ein fremsta hugveita heims á þessu sviði, Resources for the Future (RFF), hefur sett fram nýjasta heildarmatið á samfélagslegum kostnaði kolefnis. Með samfélagslegan kostnað upp á 185 USD á tonn, eða um 23.184 krónur á verðlagi 1. nóvember 2025.

Þetta gerir mælikvarðann ekki að óljósri fræðistærð — heldur krónutölu sem lýsir raunverulegum skaða.

Heildarlosun losunarfrekustu fyrirtækja Íslands er 4,7 milljónir tonna CO₂ — aukning um 9%. Samfélagslegur kostnaður rúmir 109 milljarðar króna.

  • Icelandair losar mest — um 1,2 milljónir tonna. Samfélagslegur kostnaður: 27 milljarðar.
  • Stóriðjufyrirtæki fimm: Alcoa, Norðurál, ISAL, Elkem og PCC Bakki með samtals tæpa 50 milljarða.
  • Samskip og Eimskip bæta við tæpum 7 milljörðum hvert.

Hvert tonn, hvert fyrirtæki, hvert ár: þetta safnast hratt upp.

Vaxandi áhætta sem getur kostað margfalt meira

Vísindamenn vara nú við því að jafnvel tímabundið hitaaukning yfir 1,5°C markið geti valdið mun meiri skaða en áður var talið. Slík skekkja gæti ýtt ákveðnum náttúrukerfum yfir í óafturkræf viðbrögð, svo sem:

  • hraðari súrnun sjávar
  • tap á kolefnisríkum vistkerfum
  • hröð bráðnun stórra jökla
  • veikingu mikilvægra hafstrauma, þar á meðal AMOC

Ef hafstraumar eins og AMOC bresta eða veikjast alvarlega, hrindir það af stað breytingum sem hafa margföld áhrif á lífríki, veðurfar og samfélög. Kostnaðurinn verður þá langt umfram það sem við teljum hátt í dag.

Stóra spurningin á COP30

Þegar heimsleiðtogar hittast í Brasilíu er ein spurning stærri en aðrar: Er kolefnisverð í takt við raunverulegan samfélagslegan kostnað?

Ef svarið er nei — sem er raunin víðast hvar — þá erum við í raun að niðurgreiða mengun. Mengunin verður ókeypis fyrir þá sem losa hana, en dýr fyrir samfélagið.

Á alþjóðavettvangi hefur umræðan hitnað. Bill Gates hefur ítrekað að aukinn fókus skuli vera á aðlögun og lífsgæði.

Gagnrýnendur á borð við George Monbiot benda á að það breyti engu: kostnaðurinn hverfur ekki þó við horfum í aðra átt.

Samfélagslegur kostnaður kolefnis er óþægilegur mælikvarði — en líka gagnlegur. Hann sýnir svart á hvítu að hvert tonn af losun er skuldbinding sem einhvern þarf að greiða.

Því fyrr sem við tökum á þessum reikningi, því minni verður byrðin sem framtíðin þarf að bera.

Ef við veljum að gera ekkert í dag, mun framtíðin taka ákvörðunina fyrir okkur.

Og hún sendir alltaf hærri reikning.

Höfundur er félagi í Hellnaskeri, hugveitu um sjálfbærni.


Heimildir

Social Cost of Carbon 101

https://www.rff.org/publications/explainers/social-cost-carbon-101/

Comprehensive evidence implies a higher social cost of CO2

https://www.nature.com/articles/s41586-022-05224-9

Kostnaður við mengun Icelandair metinn á allt að átján milljarða

https://heimildin.is/grein/24063/kostnadur-vid-mengun-icelandair-metinn-a-allt-ad-atjan-milljarda/

George Monbiot — I wish we could ignore Bill Gates on the climate crisis. But he’s a billionaire, so we can’t.

https://www.theguardian.com/commentisfree/2025/nov/08/bill-gates-climate-crisis-billionaire-essay-cop30




Skoðun

Skoðun

Takk!

Borghildur Fjóla Kristjánsdóttir skrifar

Sjá meira


×