Fótbolti

Fyrr­verandi Chelsea-stjarna missti með­vitund á æfingu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Oscar þakkar stuðningsmönnum Chelsea fyrir ást og stuðning.
Oscar þakkar stuðningsmönnum Chelsea fyrir ást og stuðning. Getty/Mike Hewitt

Fyrrverandi stjörnuleikmaður Chelsea í ensku úrvalsdeildinni endaði inni á sjúkrahúsi eftir að hafa misst meðvitund á æfingu vegna hjartavandamála.

Hér er um að ræða hinn 34 ára gamla Oscar sem varð tvisvar sinnum enskur meistari með Chelsea áður en hann elti peninga til Kína.

Brasilíska dagblaðið Globo segir frá því sem gerðist og núverandi félag knattspyrnumannsins, Sao Paulo, staðfestir atvikið einnig á vefsíðu sinni.

Oscar var í þolprófi á þriðjudaginn þegar hann féll í yfirlið sem er rekið til hjartavandamála.

„Við rannsóknir sem framkvæmdar voru á þriðjudagsmorgun sem hluti af undirbúningi fyrir undirbúningstímabilið 2026, varð leikmaðurinn Oscar fyrir atviki með breytingum á hjartastarfsemi,“ skrifar São Paulo.

Félagið bætir við að starfsfólk félagsins og læknateymi frá Einstein Hospital Israelita hafi þegar í stað sinnt hinum 34 ára gamla leikmanni.

„Leikmaðurinn var síðan fluttur á sjúkrahús þar sem ástand hans er stöðugt og hann er enn undir eftirliti vegna frekari rannsókna til að staðfesta greiningu,“ segir enn fremur í yfirlýsingu frá São Paulo.

Að sögn Globo hefur Oscar einnig áður greinst með hjartavandamál.

Hinn 34 ára gamli leikmaður lék með Chelsea frá 2012 til 2016 áður en hann fór í kínverska fótboltann. Nýlega sneri hann aftur til uppeldisfélags síns í Brasilíu.

Oscar hefur leikið 48 leiki fyrir brasilíska landsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×