Fótbolti

Heimir til Tékk­lands og gæti mætt Dönum í úr­slita­leik

Sindri Sverrisson skrifar
Gleðin hefur verið mikil hjá Írum síðustu daga eftir að Heimir Hallgrímsson stýrði þeim inn í HM-umspilið.
Gleðin hefur verið mikil hjá Írum síðustu daga eftir að Heimir Hallgrímsson stýrði þeim inn í HM-umspilið. Getty/Stephen McCarthy

Liðin sextán sem spila um fjögur síðustu sæti Evrópuþjóða, á HM karla í fótbolta næsta sumar, vita núna hvaða leið þau þurfa að fara í umspilinu í lok mars.

Úkraínumenn, sem unnu Ísland í úrslitaleik um að komast í umspilið, mæta Svíum í heimaleik í undanúrslitum. Sigurliðið úr þeim leik verður svo á heimavelli gegn sigurliðinu úr leik Póllands og Albaníu, í úrslitaleik um að komast á HM.

Lærsveinar Heimis Hallgrímssonar í írska landsliðinu þurfa að vinna Tékka á útivelli í undanúrslitum og fá þá úrslitaleik við Danmörku eða Norður-Makedóníu. Ef Írar komast í úrslitaleikinn spila þeir á heimavelli.

Leið A: Ítalía - Norður-Írland og Wales - Bosnía. Wales eða Bosnía verður á heimavelli í úrslitaleiknum.

Leið B: Úkraína - Svíþjóð og Pólland - Albanía. Úkraína eða Svíþjóð verður á heimavelli í úrslitaleiknum.

Leið C: Tyrkland - Rúmenía og Slóvakía - Kósovó. Slóvakía eða Kósovó verður á heimavelli í úrslitaleiknum.

Leið D: Danmörk - Norður-Makedónía og Tékkland - Írland. Tékkland eða Írland verður á heimavelli í úrslitaleiknum.

Sigurliðið úr hverri leið kemst á HM næsta sumar.

Undanúrslitaleikirnir fara fram 26. mars og úrslitaleikirnir 31. mars.

Evrópuþjóðirnar tólf sem komust beint á HM í gegnum undanriðla eru: Austurríki, Belgía, England, Frakkland, Holland, Króatía, Noregur, Portúgal, Skotland, Spánn, Sviss, Þýskaland.

Jamaíka, Írak og fleiri í baráttu um tvö sæti

Auk umspilsins í Evrópu eru svo tvö sæti enn í boði í blönduðu heimsálfu umspili sem einnig fer fram í lok mars.

Leið A: Nýja-Kaledónía - Jamaíka í undanúrslitum. Sigurliðið mætir svo Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó í úrslitaleik.

Leið B: Bólivía - Súrínam í undanúrslitum. Sigurliðið mætir svo Írak í úrslitaleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×