Erlent

Tuttugu og fjórir létust í á­rásum Ísraels þrátt fyrir vopna­hlé

Agnar Már Másson skrifar
Maður á Gasa flytur stúku á Al-Shifa spítalann á Gasa eftir árásirnar í dag.
Maður á Gasa flytur stúku á Al-Shifa spítalann á Gasa eftir árásirnar í dag. AP

Að minnsta kosti tuttugu og fjórir létust í loftárásum Ísraelshers á Gasaströndinni í dag og er dagurinn því einn sá mannskæðasti frá því að vopnahlé tók gildi í byrjun október. Ísraelsk stjórnvöld segjast hafa verið að bregðast við meintu broti Hamasliða. Þau segjast hafa drepið fimm Hamasliða.

Yfirvöld á Gasaströndinni greina frá andlátunum samkvæmt AP. Enn fremur segir að um 54 manns séu særðir. Unicef benti á í gær að um 280 Palestínumenn, þar af um 67 börn, hefðu látið lífið á Gasa frá því að vopnahléið hófst. Það gera um tvö börn á dag.

Reuters hefur eftir sjónarvottum og heilbrigðisstarfsfólki að fyrsta flugskeytið hafi hafnað á bíl í hverfinu Rimal, sem er afar þéttbýlt rétt eins og Gasaströndin öll. Mikill eldur kviknaði á svæðinu en niðurlögum hans var ráðið.

Skömmu síðar hafi tvö flugskeyti lent á tveimur húsum í borginni Deir Al-Balah, fyrir miðju Gasa, og drepið þar um tíu manns. Síðar í dag lenti svo annað loftskeyti Ísraelsmanna í vestanverðri Gasaborg og drap hið minnsta fimm Palestínumenn, að sögn sjúkraflutningamanna.

Ísraelsher heldur því fram að palestínskur byssumaður hafi farið inn á svæði á Gasa sem Ísrael hefur lagt undir sig og skotið á hermenn. Hann hafi misnotað „mannúðarvegin á svæðinu sem mannúðaraðstoð er flutt um“ á sunnanverðu Gasasvæðinu. Herinn kallaði þetta „ósvífið brot á vopnahléssamningnum“. Herinn segist hafa verið að svara þessu.

Fulltrúi Hamasliða segir við Reuters að samtökin þvertaki fyrir ásakanir Ísraelsmanna og kallar þær „afsökun til að drepa.“ Samtökin séu staðráðin í að virða vopnahléið.

Ísraelsmenn og Hamasliðar hafa ítrekað sakað hvorn annan um að brjóta vopnahléð sem hefur nú staðið yfir í um sex vikur. Hamas sögðu í dag að gjörðir milligöngumanna og Bandaríkin þyrftu einhvern veginn að bregðast við framgöngu Ísraelsmanna.

Ísraelsmenn óskuðu einnig eftir því við milligöngumenn að þeir krefðust þess að Hamas uppfylltu sinn hluta í vopnahlénu og skiluðu síðustu þremur látnu gíslunum og kláruðu afvopnun sína, samkvæmt því sem fram kom í yfirlýsingu forsætisráðuneytis Benjamíns Netanjahús. Herin hafi drepið fimm Hamasliða í árásunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×