Íslenski boltinn

Theo­dór Elmar hættur hjá KR

Sindri Sverrisson skrifar
Theodór Elmar Bjarnason ætlar að snúa sér að öðru en fótbolta, að minnsta kosti í bili.
Theodór Elmar Bjarnason ætlar að snúa sér að öðru en fótbolta, að minnsta kosti í bili. Vísir/Vilhelm

Theodór Elmar Bjarnason er hættur störfum hjá KR eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari karlaliðs félagsins í sumar og þjálfað 2. flokk.

Þetta staðfesti Elmar í samtali við Fótbolta.net í dag og því ljóst að Óskar Hrafn Þorvaldsson verður með nýjan aðstoðarmann með sér á næstu leiktíð.

Elmar segist einfaldlega ekki hafa fengið þá nauðsynlegu tilfinningu að hann vildi gefa sig allan í verkefnið og því ákveðið að taka sér pásu frá fótbolta, að minnsta kosti að sinni, og snúa sér að öðru.

Elmar er 38 ára gamall, uppalinn KR-ingur og á að baki 93 leiki fyrir KR í efstu deild sem leikmaður. Hann lék síðast með liðinu í fyrra en spilaði svo með KV í 3. deild í sumar samhliða þjálfuninni hjá KR.

Elmar hóf meistaraflokksferil sinn með KR árið 2004 en fór svo út í atvinnumennsku og spilaði í Skotlandi, Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Tyrklandi og Grikklandi, áður en hann sneri heim árið 2021. Hann á að baki 41 A-landsleik.


Tengdar fréttir

Theodór Elmar og Pattra í sundur

Theodór Elmar Bjarnason, fyrrverandi fótboltamaður og aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla hjá KR, og Pattra Sriyanonge, tískubloggari og markaðsstjóri gleraugnaverslunarinnar Sjáðu, eru hætt saman. Þau voru saman í sextán ár og eiga tvö börn saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×