Innlent

Hanna Katrín boðar sjókvíaeldi í Mjóafirði

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Hanna Katrín sagðist bjartsýn á framtíð lagareldis hér á landi. 
Hanna Katrín sagðist bjartsýn á framtíð lagareldis hér á landi.  Vísir/Rúnar

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra hefur nú kallað eftir því að Hafrannsóknarstofnun geri burðarþolsmat í Mjóafirði og tillögur að eldissvæðum í firðinum.

Þetta kom fram í máli ráðherrans á Sjávarútvegsdeginum sem fram fór í Hörpu í gær en þar boðaði hún einnig nýtt frumvarp um lagareldi á komandi vorþingi. 

„Í samhengi við þann vöxt sem er í greininni er gaman að segja frá því að ég hef kallað eftir því við Hafrannsóknarstofnun að gert verði verði burðarþolsmat í Mjóafirði og tillögur að eldissvæðum. Gert er ráð fyrir að ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar verði tilbúin snemma á vormánuðum og þá verður ekkert því til fyrirstöðu að farið veðri í útboð á svæðunum enda liggur fyrir strandsvæðaskipulag fyrir Mjóafjörð,“ sagði Hanna Katrín í ávarpi sínu á Sjávarútvegsdeginum í gærmorgun.

Ráðherrann sagðist bjartsýn á framtíð lagareldis hér á landi og sagðist trúa því að greinin verði ein af undirstöðum hagvaxtar á næstu árum. Þá boðaði hún einnig nýtt heildstætt frumvarp um lagareldi á komandi vorþingi.

Náttúruverndarsamtök lýsa gríðarlegum vonbrigðum

Íslenski náttúruverndarsjóðurinn, samtök sem berjast gegn laxeldi í opnum sjókvíuum við Íslandsstrendur hefur brugðist við þessari ákvörðun ráðherrans og í tilkynningu er gríðarlegum vonbrigðum lýst með þessa ákvörðun.

Sjóðurinn segir að með þessu sé verið að taka sérhagsmuni fram yfir almannahagsmuni, þvert á það sem ríkisstjórnin hafi boðað. Þá er einnig bent á að í könnun sem Gallup gerði síðastliðið sumar hafi komið fram mikil andstaða meðal almennings við laxeldi í opnum sjókvíum. Þannig hafi sjötíu prósent kjósenda Viðreisnar, flokks Hönnu Katrínar, verið andsnúnir sjókvíeldi og aðeins fimm prósent sögðust styðja slíkan iðnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×