Fótbolti

Refur á vappi um Brúna minnti á Atla

Sindri Sverrisson skrifar
Chelsea-menn skutu Börsungum ref fyrir rass á Brúnni.
Chelsea-menn skutu Börsungum ref fyrir rass á Brúnni. Samsett/EPA/Skjáskot

Það voru margir góðir gestir á Stamford Bridge í Lundúnum í gærkvöld, á stórleik Chelsea og Barcelona í Meistaradeild Evrópu, og meðal annars virtist refur vilja fá að taka þátt í stemningunni.

Í Meistaradeildarmörkunum á Sýn Sport í gærkvöld var sýnt frá því þegar refur sást á vappi í stúkunni á Stamford Bridge, eins og sjá má hér að neðan. Ekki fylgdi sögunni hvort refurinn var í leit að montnu músargreyi eða vildi einfaldlega sjá ungstirnin Estevao og Lamine Yamal mætast.

Stefán Árni Pálsson var með þá Atla Viðar Björnsson og Baldur Sigurðsson hjá sér í þættinum og sagði:

„Atli, þú varst mikill refur í boxinu þegar þú varst að spila. Það var refur á Stamford Bridge [í gærkvöld],“ og óhætt að taka undir þessa lýsingu á Atla.

„Þetta er nokkuð líkt þér Atli. Iðinn og helvíti góður,“ hélt Stefán áfram.

Segja má að Chelsea-menn hafi svo skotið Börsungum ref fyrir rass því þeir höfðu umtalsverða yfirburði í leiknum og unnu 3-0 sigur, þrátt fyrir að tvö mörk væru dæmd af heimamönnum. Öll helstu atvik úr leiknum má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×