Handbolti

Al­freð Gísla keyrði í rúma sex tíma til að sjá ís­lensku stelpurnar spila

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Gíslason þjálfar þýska karlaalandsliðið en heldur með því íslenska í kvöld.
Alfreð Gíslason þjálfar þýska karlaalandsliðið en heldur með því íslenska í kvöld. Getty/Marco Wolf

Alfreð Gíslason, þjálfari þýska karlalandsliðsins í handbolta, er meðal áhorfenda á fyrsta leik íslenska kvennalandsliðsins á heimsmeistaramótinu í Þýskalandi.

Alfreð fór í viðtal hjá Ríkisútvarpinu fyrir leik þar sem hann ræddi meðal annars hvað hann lagði mikið á sig til þess að ná leiknum í Stuttgart.

„Ég keyrði held ég í rúmlega sex tíma til þess að koma mér á staðinn og ég bara vona að það sé þess virði. Sérstaklega að sjá Ísland á móti Þýskalandi. Það eru bara náttúrulega mikil forréttindi og gaman fyrir mig,“ sagði Alfreð Gíslason við Þorkel Gunnar Sigurbjörnsson.

„Ég held með íslensku stelpunum. Það væri svona fimmtíu-fimmtíu hjá körlunum en þar sem ég væri með minna svona tilfinningalegt samband við kvennaliðið hjá Þjóðverjum þá held ég með íslensku stelpunum,“ sagði Alfreð.

Alfreð segir að miklar væntingar séu gerðar til þýska liðsins á mótinu.

„Ég held að það sé nokkuð mikil pressa á þeim og mikil pressa á þeim að komast í undanúrslit. Ég held að þær séu náttúrulega með ágætis lið og eiga held ég góða möguleika á að vinna riðilinn. Það kemur dálítið í ljós í dag. Ég held að þær séu samt með meiri séns á að vinna leikinn í dag heldur en Íslendingarnir. Íslenska liðið kemur til með að berjast við Serbíu um annað sætið en það er mikil pressa á Þjóðverjum þannig að komast í undanúrslit og það er alls ekki auðvelt,“ sagði Alfreð en hvaða ráð gefur hann okkar konum.

„Það sem þær þurfa er einbeiting, hafa bara virkilega gaman af stemningunni, gaman að leiknum, leggja allt í þetta og bara njóta þess að vera hérna. Það er kannski líka dálítið þeirra séns, vegna þess að því lengur sem þær eru inni í leiknum, því meiri verður pressan á Þjóðverjunum.“ sagði Alfreð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×