Fótbolti

Óttast að Gísli sé enn á ný lengi frá

Valur Páll Eiríksson skrifar
Það virðist ekki ætla af Gísla að ganga í Póllandi.
Það virðist ekki ætla af Gísla að ganga í Póllandi. Grzegorz Wajda/SOPA Images/LightRocket via Getty Images

Óttast er að landsliðsmaðurinn Gísli Gottskálk Þórðarson sé lengi frá eftir að hann var borinn af velli í leik liðs hans Lech Poznan í gærkvöld. Meiðsli hafa elt miðjumanninn á röndum eftir vistaskipti hans til liðsins.

Gísli virtist þjáður þegar hann var borinn af velli í leik Lech Poznan við Piast Gliwice í pólsku bikarkeppninnni í gær. Lech vann leikinn 2-0 og komst í 8-liða úrslit keppninnar með sigrinum.

Vallaraðstæður voru slæmar og virðist Gísli hafa snúist upp á hnéð þegar hann teygði sig eftir boltanum. Óttast er að liðbönd í hnénu hafi skaddast eða jafnvel slitnað.

Gísli samdi við pólska liðið síðasta haust eftir glimrandi frammistöðu með Víkingi hér heima. Síðan þá hefur hann í tvígang verið lengi frá vegna meiðsla; annars vegar vegna slæmra axlarmeiðsla og hins vegar vegna slitinna liðbanda í ökkla.

Gísli er 21 árs og hefur skorað eitt mark í 18 leikjum fyrir Lech Poznan í öllum keppnum á leiktíðinni. Hann spilaði sinn fyrsta landsleik í október og hefur verið í síðustu landsliðshópum Arnars Gunnlaugssonar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×