Erlent

Endur­heimtu verð­mætt háls­menið úr þörmum þjófsins

Kjartan Kjartansson skrifar
Gullhálsmenið verðmæta eftir að það skilaði sér út úr þjófnum sem gleypti það fyrir viku.
Gullhálsmenið verðmæta eftir að það skilaði sér út úr þjófnum sem gleypti það fyrir viku. AP/lögreglan á Nýja-Sjálandi

Verðmætt Fabergé-hálsmen skilaði sér í gærkvöldi út sér þjófi sem gleypti það í skartgripaverslun á Nýja-Sjálandi. Það tók meltingarkerfi mannsins sex daga að sýna lögreglu samstarfsvilja.

Lögreglumenn hafa vaktað þjófinn í varðhaldi frá því að hann var handtekinn fyrir að gleypa hálsmenið í Partridge-skartgripaversluninni í Auckland fyrir viku.

Þolinmæði lögreglunnar bar loks ávöxt í gærkvöldi þegar hálsmenið gekk af þjófnum með náttúrulegum hætti og án nokkurs læknisfræðilegs inngrips, eins og það var orðað.

Þjófurinn, sem er 32 ára gamall karlmaður, hefur ekki tekið afstöðu til sakarefnisins ennþá en hann kemur næst fyrir dómara á mánudag. Hann verður í varðhaldi í millitíðinni, að sögn AP-fréttastofunnar.

Hálsmenið sem hann gleypti var inni í Farbergé-eggi sem var framleitt í takmörkuðu upplagi og var innblásið af James Bond-myndinni „Octopussy“ frá 1983. Í henni notast skartgripasmyglarar við falsað Fabergé-egg.

Söluverð hálsmensins var 19.000 dollarar, jafnvirði hátt í tveggja og hálfrar milljónar króna. Verðmiðinn var enn á gullkeðju mensins þegar það var heimt úr helju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×