Fótbolti

Ísak fékk ekki boltann og Köln kastaði sigri frá sér

Sindri Sverrisson skrifar
Ísak Bergmann Jóhannesson gæti þurft að ræða við liðsfélaga sinn eftir að hafa ekki fengið boltann í dauðafæri í uppbótartíma í dag.
Ísak Bergmann Jóhannesson gæti þurft að ræða við liðsfélaga sinn eftir að hafa ekki fengið boltann í dauðafæri í uppbótartíma í dag. Getty/Oliver Kaelke

Landsliðsmaðurinn Ísak Bergmann Jóhannesson kom inn á sem varamaður hjá Köln í dag þegar liðið varð að sætta sig við sárgrætilegt jafntefli í þýsku 1. deildinni í fótbolta, 1-1 gegn St. Pauli á heimavelli.

Ísak hafði átt fast sæti í byrjunarliði Kölnar síðan í september en byrjaði á varamannabekknum í dag. Said El Mala skoraði mark Kölnar á 51. mínútu og Ísak kom svo inn á þegar tuttugu mínútur voru eftir. 

Ísak var í upplögðu færi til að skora í uppbótartíma og tryggja sigurinn en fékk ekki sendingu frá „eigingjörnum“ liðsfélaga sínum sem ákvað að taka frekar skotið. Þess í stað komust gestirnir í sókn og jöfnuðu metin rétt áður en flautað var til leiksloka.

Köln er því með 16 stig í 8. sæti en St. Pauli er með 8 stig í fallsæti, því næstneðsta.

Kane með þrennu fyrir Bayern

Bayern jók hins vegar gott forskot sitt á toppi deildarinnar með öruggum 5-0 útisigri gegn Stuttgart, þar sem Harry Kane skoraði þrennu. Annað mark hans kom úr víti á 82. mínútu eftir að Lorenz Assignon var rekinn af velli. Þeir Konrad Laimer og Josip Stanisic skoruðu sitt markið hvor.

Bayern er nú með 37 stig á toppnum, eftir 12 sigra og eitt jafntefli, en Leipzig kemur næst í 2. sæti með 26 stig og á leik til góða við Frankfurt í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×