Erlent

Með byssu í stærstu verslunar­mið­stöð Oslóar

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar að störfum í Osló. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Lögregluþjónar að störfum í Osló. Myndin tengist fréttinni ekki beint. EPA/Jonas Fæste Laksekjon

Lögreglan í Osló hefur handtekið mann sem sagður er hafa mætt með skotvopn í verslunarmiðstöðina Storo, þá stærstu í borginni, og hleypt þar af allavega einu skoti. Maðurinn mun hafa verið handtekinn en fólk hefur verið beðið um að halda sig fjarri verslunarmiðstöðinni í bili.

Ekki er vitað til þess að einhvern hafi sakað.

Í frétt norska ríkisútvarpsins segir að mjög mikill viðbúnaður sé í og við Storo og að þyrlu sé flogið þar yfir. Ekki sé talið að fleiri en einn maður hafi brotið af sér í verslunarmiðstöðinni og er búið að rýma hana.

Maðurinn sem var handtekinn er sagður vera ungur og á hann að hafa sjálfur haft samband við lögregluna. Hann mun hafa verið vopnaður haglabyssu og er sagður hafa skotið upp í loftið.

Yfirmaður lögreglunnar á svæðinu sagði NRK að svo virtist sem að maðurinn hefði ekki ætlað að skaða neinn.

NRK hefur eftir vitni að maðurinn hafi gengið inn í verslunarmiðstöðina með byssu í höndunum og að fólk hafi hlaupið undan honum. Ekki liggur fyrir hvers konar byssu var um að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×