Menning

Vilja minnka allt þetta nei­kvæða suð

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Markús Bjarni var að opna sýningu um Suð.
Markús Bjarni var að opna sýningu um Suð. Birkir Bjarnason

Einhverjir koma kannski af fjöllum þegar rætt er um hljóðdempandi listaverk en hönnuðurinn og listamaðurinn Markús Bjarnason hefur á undanförnum árum sérhæft sig í þeim. Hann var að opna sýningu með þessu listformi sem einkennist af miklu notagildi.

Markús hefur nú lengi vel skapað einstök hljóðdempandi málverk sem draga úr óæskilegum tíðnum og bæta hljóðvist þeirra rýma sem þau prýða.

Hjón með suð á heilanum

Í verkum sínum sameinar hann hönnun og list, notagildi og fagurfræði og rannsakar suð í lífi fólks og hvernig það skapar sér leiðir og rútínur til að vinna gegn neikvæðu suði.

Hann og eiginkona hans, Heiðbjört Arney viðskiptafræðingur, standa á bak við Stúdíó Suð sem hefur það að markmiði að minnka neikvætt suð í lífi fólks. Það er óhætt að segja að þau séu með suð á heilanum.

„Ég hef verið að gera hljóðdempandi málverk í um tvö ár, en hugmyndin er í grunninn að skapa málverk sem eru á sama tíma ósýnileg hljóðvistarlausn. 

Ég er að tvinna saman hönnun og list. Þetta eru listaverk, en þau hafa einnig notagildi,“ segir Markús og bætir við: 

„Ég lærði að silkiþrykkja í Listaháskólanum og mig hefur lengi dreymt um að gefa út silkiprentlínu. 

Nú lét ég loks verða af því og við Heiðbjört, konan mín, settum upp lítið silkiprentverkstæði á vinnustofunni okkar.“

Seldist næstum upp á fyrsta degi

Stúdíó Suð hélt pop-up sýningu í Litla gallerí helgina 28.–30. nóvember þar sem þau kynntu til leiks ný hljóðdempandi silkiþrykkt listaverk og sló sýningin rækilega í gegn.

Þegar hurðir opnuðust seldust nær öll verkin strax á fyrsta degi og myndaðist biðröð gesta sem vildu tryggja sér verk. 

Markús vann langt fram á nótt við að búa til fleiri viðbótarverk til að mæta eftirspurninni, en þrátt fyrir þá viðleitni var allt uppselt áður en sýningarhelgin lauk.

Fólk meðvitaðra um hljóðvist

Í kjölfarið myndaðist langur listi af pöntunum sem undirstrikar að hér sé komin fram nýjung sem fólk tengir sterkt við.

„Fólk er byrjað að pæla meira í hljóðvist heima hjá sér og er að átta sig á því að hún er mikilvægur þáttur í því að líða vel í eigin rými. 

Við finnum fyrir því að fólk langar að bæta hljóðvistina á fallegan hátt, en margar hljóðvistarlausnir á markaðnum eru annaðhvort dálítið skrifstofulegar eða augljósar í tilgangi sínum,“ segir Heiðbjört og bætir við: 

„Rannsóknir sýna að slæm hljóðvist hefur áhrif á einbeitingu, heilsu og lífsgæði. Hljóðdempandi silkiprentin sameina því aldagamla handverks aðferð og nútímalega hljóðvistartækni á hátt sem bæði gleður augað og róar rýmið.“

Þúsund ára gömul aðferð

Silkiprent eða handprent er um þúsund ára gömul aðferð sem á rætur að rekja til Kína og er nú notuð af fagfólki og listamönnum um allan heim. 

Hljóðdempandi silkiprentverkin eru handsmíðuð frá A til Ö hér á Íslandi af Stúdíó Suð. Verkin eru handprentuð á náttúrulegt hör, innihalda hljóðdempandi þéttull og innrömmuð í gegnheila eik.

Það er nóg um að vera hjá Stúdíó Suð, sem tekur nú þátt í tveimur sýningum; hljóðdempandi verk þeirra má nálgast bæði í La Boutique Design í Reykjavík og í Listasal Mosfellsbæjar fram að jólum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.