Innlent

Halla Berg­þóra sækir um en ekki Páley

Atli Ísleifsson skrifar
Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra, Birgir Jónasson, fangelsismálastjóri, og Grímur Hergeirsson, lögreglustjóri á Suðurlandi og settur ríkislögrelgustjóri.
Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra, Birgir Jónasson, fangelsismálastjóri, og Grímur Hergeirsson, lögreglustjóri á Suðurlandi og settur ríkislögrelgustjóri. Vísir

Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, hefur ákveðið að sækja um embætti ríkislögreglustjóra sem hefur verið auglýst laust til umsóknar. Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra, hyggst ekki sækja um stöðuna.

Halla Bergþóra staðfestir í samtali við fréttastofu að hún ætli sér að sækja um og að hún hafi tekið ákvörðunina að „vel ígrunduðu máli“.

Dómsmálaráðuneytið auglýsti í síðustu viku embætti ríkislögreglustjóra laust til umsóknar. Þetta var gert eftir að Sigríður Björk Guðjónsdóttir lét af embætti í kjölfar gagnrýni um greiðslur til ráðgjafarfyrirtækis, en á sama tíma var tilkynnt að hún tæki við stöðu sérfræðings í aðgerðum gegn kynbundnu ofbeldi í dómsmálaráðuneytinu. 

Dómsmálaráðherra ákvað þá einnig að skipa Grím Hergeirsson, lögreglustjóra á Suðurlandi, tímabundið í embætti ríkislögreglustjóra. Samkvæmt svörum frá Grími hefur hann ekki tekið ákvörðun um hvort að hann muni sækja um embættið.

Birgir vill ekki upplýsa hvort hann muni sækja um

Í auglýsingu ráðuneytisins segir að frestur til að sækja um embættið renni út 18. desember.

Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra, staðfestir í samtali við fréttastofu að hún ætli sér ekki að sækja um embætti ríkislögreglustjóra og að hún hafi upplýst sitt samstarfsfólk um ákvörðunina.

Birgir Jónasson, lögreglustjóri á Norðurlandi vestra og settur forstjóri Fangelsismálastofnunar, sagðist ekki vilja upplýsa um hvort hann muni sækja um stöðuna þegar fréttastofa leitaði til hans. Birgir var í hópi þeirra sem sótti um stöðu lögreglustjóra á Suðurnesjum sem auglýst var laus til umsóknar í haust.

Alls sóttu sex manns um þá stöðu, en dómsmálaráðuneytið ákvað að fresta skipun á nýjum lögreglustjóra þar til að búið er að skipa nýjan ríkislögreglustjóra.

Úlfar Lúðvíksson, fyrrverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum, hefur sagst ekki vera búinn að gera upp hug sinn hvort hann muni sækjast eftir embætti ríkislögreglustjóra sem nú er auglýst.

Öflugur leiðtogi með skýra sýn

Í auglýsingu dómsmálaráðuneytisins segir að leitað sé að öflugum leiðtoga með skýra sýn og getu til þess að leiða fólk til árangurs, í þeim tilgangi að móta og efla starfsemi embættisins.

Helstu hæfniskröfur eru eftirfarandi:

  • Öflug leiðtogahæfni og farsæl reynsla af stjórnun og stefnumótun er skilyrði.
  • Rík samskipta- og samstarfshæfni er skilyrði.
  • Þekking og yfirsýn yfir verkefni lögreglunnar og skýr framtíðarsýn varðandi embætti ríkislögreglustjóra og þróun löggæslu er skilyrði.
  • Þekking og reynsla á sviði reksturs og áætlanagerðar er skilyrði.
  • Þekking og reynsla af umbótastarfi er kostur.
  • Reynsla af alþjóðasamstarfi er kostur.
  • Fagmennska, frumkvæði, drifkraftur og lausnamiðuð hugsun.
  • Mjög gott vald á íslensku og ensku og færni til að tjá sig í ræðu og riti.

Dómsmálaráðherra skipar í embætti ríkislögreglustjóra til fimm ára í senn og skipað verður í embættið þegar nefnd sem metur hæfni umsækjenda hefur lokið störfum. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um skipun liggur fyrir. Nöfn allra umsækjenda verða birt á vef ráðuneytisins að liðnum umsóknarfresti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×