Fótbolti

Komið á ó­vart með glæsi­legu mömmu­her­bergi

Sindri Sverrisson skrifar
Claire Emslie getur sýnt syni sínum skoskættaðan bangsa á meðan hún nær upp fyrri getu til að skora mörk fyrir Angel City.
Claire Emslie getur sýnt syni sínum skoskættaðan bangsa á meðan hún nær upp fyrri getu til að skora mörk fyrir Angel City. @weareangelcity/Getty

Bandaríska knattspyrnufélagið Angel City, sem Sveindís Jane Jónsdóttir spilar fyrir, hefur sýnt í verki að félagið hugsar vel um þá leikmenn sína sem sinna þurfa móðurhlutverkinu.

Skoski landsliðsframherjinn Claire Emslie hefur verið leikmaður Angel City frá árinu 2022 en spilaði aðeins í upphafi nýafstaðins tímabils, áður en hún varð að draga sig í hlé vegna óléttunnar. Þær Sveindís eiga því eftir að spila saman þar sem Sveindís kom til Englaborgarinnar þegar vel var liðið á tímabilið, eftir EM í Sviss í sumar.

Emslie var komið skemmtilega á óvart þegar hún mætti á æfingasvæði Angel City á dögunum, og fékk að sjá sérstakt „mæðraherbergi“ félagsins sem fengið hefur mikla upplyftingu.

Í herberginu eru allir helstu hlutir sem verðandi mæður gætu óskað sér, eða jafnvel fleira en Emslie er með heima hjá sér eins og hún benti á glaðbeitt og grínaðist með að ætla að stela einhverju með sér heim.

Angel City leggur metnað sinn í að foreldrar og verðandi foreldrar geti notið sín í góðu umhverfi hjá félaginu, og félagið passar líka upp á smáatriðin eins og sjá mátti á einum bangsanum sem var að sjálfsögðu skoskt hálandanaut.

„Guð minn góður, þetta er stórkostlegt. Ég trúi þessu ekki,“ sagði Emslie þegar hún gekk inn í herbergið og kvaðst hlakka til að geta sýnt öllum litla strákinn sinn.

Tímabilinu lauk snemma hjá Angel City, eða 2. nóvember, þar sem liðið endaði í 11. sæti af 14 liðum bandarísku deildarinnar og missti af sæti í úrslitakeppninni. Næsta leiktíð hefst um miðjan mars, eða eftir að Sveindís spilar með íslenska landsliðinu gegn heimsmeisturum Spánar og Evrópumeisturum Englands ytra, 3. og 7. mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×