Fótbolti

Danir og Svíar eiga í deilum um korn­unga drengi

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Mynd fengin af heimasíðu FCK, þar sem leikmenn á þessu aldursbili eru á æfingu.
Mynd fengin af heimasíðu FCK, þar sem leikmenn á þessu aldursbili eru á æfingu.

Sitt hvoru megin við Eyrarsundið milli Danmerkur og Svíþjóðar eru stórliðin FC Kaupmannahöfn og FF Malmö staðsett. Sænska fótboltafélagið ásakar danska stórliðið um að lokka unga leikmenn til félagsins með ólöglegum hætti.

Mánuðum saman hefur FF Malmö gagnrýnt FC Kaupmannahöfn fyrir að bjóða börnum, niður í allt að sex ára gömlum, að ganga til liðs við félagið.

Rígurinn er mikill milli nágrannaliðanna, eins og sást þegar þau mættust í undankeppni Meistaradeildarinnar í haust. 

Svo hátt heyrðust ásakanirnar á síðasta tímabili að málið var tekið fyrir á aðalfundi FCK í apríl og þar þvertók yfirmaður íþróttamála fyrir þetta.

„Ég hef verið viðriðinn fótbolta í fjölda ára og þessi umræða hefur átt sér stað síðustu áratugi. Ég harðneita öllum ásökunum um mútur til barna í fótbolta“ sagði Sune Smith-Nielsen hjá FCK.

Yfirmaður íþróttamála hjá Malmö, Per Agren, hefur nú stigið fram með nýjar ásakanir, í grein sem birtist í danska sunnudagsblaðinu Politiken.

Þar segir hann FCK hafa mútað tveimur átta ára drengjum, eða fjölskyldum þeirra, og fengið þá til að ganga til liðs við félagið. Sömu aðferðum hafi verið beitt á fjölskyldu sjö ára drengs en hún lét ekki sannfærast. 

„FCK ætti ekki að einbeita sér að því að sækja leikmenn úr þessum aldurshópi og bjóða foreldrum beinlínis að flytja yfir Eyrarsundið. Sérstaklega þegar þessir leikmenn eru nú þegar í einni bestu akademíu Svíþjóðar“ sagði Per Agren hjá Malmö.

FCK harðneitaði þessum nýju ásökunum þegar Bold leitaði viðbragða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×