Handbolti

Ómar Ingi fiskaði vítið sem gaf sigur­markið í Íslendingaslag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon er að eiga frábært tímabil með Magdeburg og sýndi það enn á ný í kvöld.
Ómar Ingi Magnússon er að eiga frábært tímabil með Magdeburg og sýndi það enn á ný í kvöld. Getty/Igor Kralj/

Íslenski landsliðsfyrirliðinn Ómar Ingi Magnússon átti enn einn stórleikinn í kvöld þegar Magdeburg hélt sigurgöngu sinni áfram í þýska handboltanum.

Magdeburg vann þá eins marks útisigur í Íslendingaslag á móti Gummersbach, 32-31.

Sigurmarkið kom úr vítakasti á lokasekúndunum sem Ómar Ingi fiskaði en Matthias Musche skoraði úr. Ómar Ingi skoraði líka tvö gríðarlega mikilvæg mörk á lokakafla leiksins.

Guðjón Valur Sigurðsson þjálfar lið Gummersbach og var ekki langt frá því að ná að taka stig af toppliðinu.

Sigurinn, sá fimmtándi í sextán leikjum hjá Magdeburg, þýðir að liðið er enn taplaust í deildinni og með fimm stiga forskot á toppi deildarinnar

Ómar Ingi var með ellefu mörk og tvær stoðsendingar fyrir Magdeburg í leiknum og Gísli Þorgeir Kristjánsson bætti við fjórum mörkum og fimm stoðsendingum. Elvar Örn Jonsson skoraði eitt mark og Magdeburg fékk því sextán íslensk mörk í þessum spennuleik.

Elliði Snær Viðarsson og Teitur Örn Einarsson skoruðu báðir tvö mörk fyrir Gummersbach. Gummersbach er í sjötta sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×