Lífið

„Þegar maður er með ein­hverjum sem elskar að borða, þá er svo gaman að elda“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Snorri er ekki bara góður tónlistarmaður, heldur einnig listamaður í eldhúsinu.
Snorri er ekki bara góður tónlistarmaður, heldur einnig listamaður í eldhúsinu.

Hjónin Snorri Helgason og Saga Garðarsdóttir eru að vinna í ýmsum verkefnum saman og ræddi Vala Matt við þau hjónin í Íslandi í dag á Sýn í gær. Þau eru einstaklega samrýmd en á þeirra heimili er það þannig að Saga eldar hreinlega aldrei.

Snorri aftur á móti elskar að elda og eldar alltaf fyrir fjölskylduna.

Snorri gaf á dögunum út nýja plötu sem kallast Borgartún og hefur hún slegið í gegn. Hann heldur einnig úti Instagram-síðunni Snossgæti þar sem sjá má Snorra elda girnilega rétti.

„Ég hef alltaf haft áhuga á mat. Ég hef alltaf heyrt það frá foreldrum mínum, það mátti ekki opna baunadós, þá var ég kominn hlaupandi þegar ég var barn. En það er kannski ekki fyrir kannski svona tíu árum síðan sirka sem ég fór virkilega að taka þetta föstum tökum. Það er aðallega út af því að bara konan mín, Saga, elskar svo mikið mat og þegar maður er með einhverjum sem elskar að borða, þá er svo gaman að elda,“ segir Snorri og heldur áfram.

„Ég fór að prófa mig meira og meira áfram og svo þegar það kom Covid varð algjör stökkbreyting. Þá hafði ég meiri tíma. Þá fór þessi hugmynd um Snossgætið að taka á sig mynd,“ segir Snorri sem líkir matargerðinni að vissu leyti við tónlist.

Hugmyndir sem liggja í loftinu

„Þetta eru bara trix og eitthvað svona sem maður pikkar upp hér og þar og blandar saman, einhver grunnur. Þetta eru hugmyndir sem liggja í loftinu og maður pikkar út það sem maður fílar sjálfur og býr til sína eigin útfærslu af því eins og í tónlist.“

Eins og áður segir kom ný plata Snorra, Borgartún, út á dögunum.

„Þessi plata er dálítið svona konseptplata. Það er svona regnhlífarhugtak yfir henni sem er í raun og veru þetta Borgartún fyrirbæri. Hugmyndin kviknaði bara þegar ég var fastur þar í umferðarteppu í Borgartúninu. Og ég var að hugsa að mig langaði til að fjalla um unglingsárin mín og svona uppvaxtarárin. Mig langaði til þess að taka bara samtímann fyrir,“ segir Snorri sem fer nánar út í plötuna í innslaginu hér að ofan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.