Veður

Djúp lægð grefur um sig

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti víða núll til sjö stig, mildast syðst.
Hiti víða núll til sjö stig, mildast syðst. Vísir/Vilhelm

Djúp lægð grefur nú um sig suðvestur af landinu og skil hennar eru á leið norður yfir landið.

Á vef Veðurstofunnar segir að áttin sé því austlæg, víða 13 til 20 metrar og sekúndu og rigning, slydda eða snjókoma með köflum. Það verður hægari um landið austanvert og á Austfjörðum má búast við talsverðri úrkomu.

„Það dregur úr vindi í dag, norðaustan og austan kaldi eða stinningskaldi og skúrir seinnipartinn, en slydda eða snjókoma norðanlands auk þess sem áfram verður hvasst norðvestantil.

Gul hríðarviðvörun tekur gildi á Vestfjörðum eftir hádegi og þar er líklegt að færð spillist á fjallvegum.

Hiti víða 0 til 7 stig, mildast syðst, en kaldara í innsveitum í fyrstu.

Áfram norðaustan- og austanátt á morgun, víða gola eða kaldi og skúrir eða él, en norðvestantil má búast við allhvössum vindi fyrri part dags með einhverri slyddu eða snjókomu. Hiti breytist lítið,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Spákort fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag: Norðaustan 8-15 m/s, en hægari norðaustan- og austanlands. Lítilsháttar snjókoma eða slydda norðantil, annars skúrir eða él. Hiti nálægt frostmarki, en að 7 stigum við suðurströndina.

Á föstudag: Suðaustan og austan 8-13, rigning eða slydda með köflum og hiti 1 til 7 stig. Hægari vindur á Norður- og Austurlandi, úrkomulítið og hiti um eða undir frostmarki. Bætir í vind um kvöldið.

Á laugardag: Austan 10-18 og rigning með köflum, en talsverð úrkoma suðaustantil. Hægari og úrkomuminna síðdegis. Hiti 1 til 8 stig.

Á sunnudag (vetrarsólstöður): Suðaustlæg átt og dálítil væta suðaustanlands, annars bjart með köflum. Heldur kólnandi.

Á mánudag og þriðjudag (Þorláksmessa): Mild suðaustlæg átt og dálítil rigning, en lengst af þurrt um landið norðanvert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×