Erlent

Noregur hyggst inn­leiða samfélagsmiðlabann

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Börn undir fimmtán ára aldri fá ekki að nota samfélagsmiðla verði af banninu.
Börn undir fimmtán ára aldri fá ekki að nota samfélagsmiðla verði af banninu. Getty

Norsk stjórnvöld skoða að setja á samfélagsmiðlabann fyrir börn undir fimmtán ára aldri. Þau feta þar með í fótspor Dana og Ástrala.

Norsk yfirvöld segja bannið vera í þágu andlegrar heilsu barnanna auk þess sem það verndi þau frá markaðsvöldum og glæpsamlegu athæfi. Rökstuðningurinn á móti er að börnin hafi rétt á að tjá sig og kynnast öðru fólki.

Samkvæmt könnun sem YLE birti styðja Norðmenn almennt breytinguna, eða þrír fjórðu. Yfir helmingur þátttakenda vildi hækka aldurstakmarkið upp í fimmtán ár, úr þrettán árum.

Helge Kvamsås, ráðuneytisstjóri í norska barna- og fjölskyldumálaráðuneytinu, segir þó að tæknin þurfi að vera til staðar til að hægt sé að fylgja eftir banninu. Einhvern veginn þurfi að vera hægt að athuga aldur notenda samfélagsmiðilsins.

„Það þarf að athuga aldurinn einhvern veginn. Það er ekki lengur nóg að haka í reit,“ segir Kvamsås.

Fleiri ríki á sömu slóðum

Sambærilegt samfélagsmiðlabann tók gildi í byrjun desember fyrir börn yngri en sextán ára og varð þar með fyrsta landið í heiminum til að setja á slíkt bann. 

Tæknirisarnir, á borð við Meta, eru ábyrgir fyrir því að notendur samfélagsmiðlanna séu eldri en sextán ára. Gangist þeir ekki við eftirlitinu geta þeir átt von á fjögurra milljarða króna sekt. Meðal samfélagsmiðlanna eru Facebook, Instagram, Snapchat, YouTube og TikTok.

Í byrjun nóvember komu danskir þingmenn sér saman um lög sem banna börnum undir fimmtán ára að nota samfélagsmiðla. Hins vegar mega þrettán ára börn vera með reikning að gefnu leyfi foreldra sinna.

„Þetta er um jafnvægi á milli þess sem við getum gert með lagasetningu og þeirri staðreynd að fjölskyldur þurfa að fá sitt eigið rými,“ sagði Mette Frederiksen, forsætisráðherra Dana, um nýju lögin.

Álíka reglur voru einnig lagðar til í þingsályktunartillögu Skúla Braga Geirdal á Alþingi. Hann, sem er varaþingmaður Framsóknarflokksins, vildi að aldurstakmarkið á samfélagsmiðlum yrði hækkað upp í fimmtán ár. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×