Fótbolti

Skoraði og fékk gult fyrir að benda

Sindri Sverrisson skrifar
Victor Osimhen skoraði fyrsta markið gegn Túnis í kvöld.
Victor Osimhen skoraði fyrsta markið gegn Túnis í kvöld. Getty/Ulrik Pedersen

Nígería er með fullt hús stiga eftir fyrstu tvo leiki sína í C-riðli Afríkukeppninnar í fótbolta. Liðið vann 3-2 sigur gegn Túnis í kvöld.

Stjörnur nígeríska liðsins voru í stuði í kvöld og komu þeir Victor Osimhen, Wilfred Ndidi og Ademola Lookman liðinu í 3-0 á 67. mínútu.

Osimhen skoraði fyrsta markið, rétt fyrir lok fyrri hálfleiks, með skalla eftir fyrirgjöf frá Lookman. Hann tók af sér andlitgrímu sína þegar hann fagnaði en fór svo að varamannabekk Túnis og benti þangað, og virtist eiga eitthvað vantalað við menn. Hann uppskar gula spjaldið.

Eins og fyrr segir komst Nígería svo í 3-0 en Montassar Talbi minnkaði muninn og Ali Abdi skoraði svo úr víti þegar enn voru þrjár mínútur eftir af venjulegum leiktíma.

Nígería landaði þó sigrinum og tryggði sig áfram í 16-liða úrslitin, eins og aðeins Egyptaland hafði áður gert. Túnis er með þrjú stig og ætti að komast áfram en liðið mætir Tansaníu í lokaumferð riðlakeppninnar á þriðjudaginn, þegar Nígería mætir Úganda. Tansanía og Úganda eru með sitt hvort stigið eftir 1-1 jafntefli fyrr í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×