Fótbolti

Hvíldu Mo Salah en unnu samt riðilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah sat á bekknum í leik Egypta á Afríkumótinu í dag.
Mohamed Salah sat á bekknum í leik Egypta á Afríkumótinu í dag. Getty/Robbie Jay Barratt

Egyptaland og Suður-Afríka tryggðu sér sæti í sextán liða úrslitum Afríkukeppninnar í fótbolta í dag.

Egyptum nægði markalaust jafntefli á móti Angóla til að vinna riðilinn en Suður-Afríka tryggði sér annað sætið í riðlinum með 3-2 sigri á Simbabve.

Sigur hefði dugað Simbabve til að taka annað sætið á kostnað Suður-Afríkumanna.

Simbabve jafnaði tvisvar metin í leiknum en Oswin Appollis tryggði Suður-Afríku sigurinn á 82. mínútu. Tshepang Moremi og Lyle Foster skoruðu hin mörkin en Tawanda Maswanhise jafnaði metin í 1-1 og hitt jöfnunarmarkið var sjálfsmark.

Mohamed Salah skoraði sigurmarkið í fyrstu tveimur leikjum Egypta en þeir voru öruggir áfram fyrir leikinn og leyfðu sér að hvíla sína stærstu hetju. Ekkert mark var skorað í leiknum og Egyptar enda því efstir.

Fjögur lið með bestan árangur í þriðja sætið komast einnig áfram en það er ólíklegt að þetta stig dugi Angólamönnum.

Þeir eru aðeins með tvö stig og mínus eitt í markatölu (2-3). Það mun hins vegar koma betur í ljós seinna þegar allir hinir riðlarnir klárast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×