Fótbolti

Heima­menn í ham og El Kaabi skoraði aftur með hjólhestaspyrnu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ayoub El Kaabi fagnar marki sínu í kvöld en hann er kominn með þrjú mörk í keppninni.
Ayoub El Kaabi fagnar marki sínu í kvöld en hann er kominn með þrjú mörk í keppninni. Getty/Torbjorn Tande

Marokkó brunaði inn í sextán liða úrslitin á Afríkumótinu í fótbolta eftir stórsigur í lokaleik riðilsins í kvöld.

Marokkó vann 3-0 sigur á Sambíu eftir að hafa skorað tvisvar á fyrsta hálftíma leiksins.

Malí tryggði sér líka sæti í útsláttarkeppninni en Sambíumenn eru úr leik. Kómoreyjar eiga ekki heldur lengur von um að komast áfram sem eitt af liðunum með besta árangurinn í þriðja sæti.

Malí og Kómoreyjar gerðu markalaust jafntefli í hinum leiknum en það þýðir að Malí gerði jafntefli í öllum leikjunum sínum og Kómoreyjar eiga enn eftir að skora á mótinu. Tvö stig og markatalan 0-2 sér til þess að þeir verða aldrei meðal liðanna með bestan árangur í þriðja sæti.

Heimamenn í Marokkó kláruðu dæmið sannfærandi og hristu af sér allar gagnrýnisraddir eftir jafntefli við Malí í leiknum á undan.

Real Madrid-strákurinn Brahim Diaz hélt áfram að skora en hann hefur skorað í öllum þremur leikjum Marokkó á mótinu.

Maður kvöldsins var aftur á móti Ayoub El Kaabi sem skoraði tvívegis. Fyrra markið skoraði hann með skalla á 9. mínútu en það síðara með hjólhestaspyrnu á 50. mínútu. El Kaabi skoraði einnig með hjólhestaspyrnu í fyrsta leiknum á mótinu.

El Kaabi hélt reyndar að markið hefði verið dæmt af vegna rangstöðu en myndbandsdómarar leiðréttu þann dóm og markið var því dæmt gilt.

Þeir El Kaabi og Diaz hafa því báðir skorað þrjú mörk í fyrstu þremur leikjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×