Fótbolti

Ríkis­stjórn Gabon setti fótboltalandsliðið sitt í bann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pierre Emerick Aubameyang er kominn í bann hjá ríkisstjórn Gabons og landsliðið hefur verið leyst upp.
Pierre Emerick Aubameyang er kominn í bann hjá ríkisstjórn Gabons og landsliðið hefur verið leyst upp. Getty/Visionhaus

Ríkisstjórn Gabon hefur leyst upp karlalandsliðið sitt í fótbolta og sett það í bann eftir „skammarlega frammistöðu“ á Afríkukeppninni 2025, eins og hún orðar það.

Það var ekki gefið upp hversu bannið verður langt en það má búast við því að það verði ekki svo langt að landsliðið detti út á komandi mótum.

Gabon féll úr leik í riðlakeppninni. Liðið tapaði öllum leikjum sínum á móti Kamerún (0-1), Mosambík (2-3) og Fílabeinsstöndinni (2-3). Öll hin þrjú liðin komust áfram í sextán liða úrslitin.

Fyrirliðinn Bruno Ecuele Manga og Pierre-Emerick Aubameyang hafa einnig verið settir í bann frá því að spila aftur fyrir landsliðið sitt.

Aubameyang er markahæsti leikmaður landsliðsins frá upphafi með 40 mörk í 86 leikjum en Manga er sá leikjahæsti með 118 leiki frá 2006 til dagsins í dag.

Gabon er í 78. sætinu á styrkleikalista Alþjóða knattspyrnusambandsins eða fjórum sætum neðar en Ísland.

Landsliðið komst ekki á Afríkumótið fyrir tveimur árum en fór í sextán liða úrslitin árið 2021.

Liðið komst ekki áfram í undankeppni HM 2026, komst í umspilið en tapaði þá 4-1 á móti Nígeríu í undanúrslitunum og var þar með úr leik.

Gabon hefur aldrei komist í úrslitakeppni HM en besti árangur landsliðsins á Afríkumótinu eru átta liða úrslitin en þangað komst Gabon 1996 og 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×