Erlent

Fimm daga þjóðar­sorg lýst yfir í Sviss

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fjöldi fólks kom saman í Crans-Montana í gær. Íbúar og landsmenn allir eru sagðir í áfalli vegna harmleiksins.
Fjöldi fólks kom saman í Crans-Montana í gær. Íbúar og landsmenn allir eru sagðir í áfalli vegna harmleiksins. Getty/Harold Cunningham

Stjórnvöld í Sviss hafa lýst yfir fimm daga þjóðarsorg vegna eldsvoðans á barnum Le Constellation í skíðabænum Crans-Montana, þar sem 40 létu lífið og að minnsta kosti 115 særðust. Unnið er að því að bera kennsl á látnu.

Forsetinn Guy Parmelin segir um að ræða einn versta atburðinn í sögu þjóðarinnar.

Eldurinn braust út um klukkan hálf tvö á nýársnótt. Eldsupptök eru enn á reiki en vitni hafa greint frá því að hann hafi byrjað eftir að blysum var komið fyrir í kampavínsflöskum. Eldurinn hafi byrjað í loftinu og breitt hratt úr sér í rýminu, sem var í kjallara hússins. Þá hafa vitni lýst því hvernig fólk freistaði þess í örvæntingu að komast út um þröngan stiga.

Ekki er vitað hversu margir voru á staðnum þegar harmleikurinn átti sér stað og því ekki á hreinu hversu margra er saknað. Lögregla segir það munu taka daga og jafnvel vikur að bera kennsl á látnu. Yfirvöld segja rannsókn á eldsvoðanum meðal annars munu ná til þess hvort öryggiskröfur voru uppfylltar og hvort neyðarútgangar voru í samræmi við reglur.

Ástand margra sem særðust er sagt alvarlegt. Þeir hafi hlotið veruleg brunasár og lungnaskemmdir. Fólkið var flutt á sjúkrahús víða um Sviss og nokkrir til nágrannaríkjanna. Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur staðfest að einhverjir séu undir eftirliti á þarlendum sjúkrahúsum.

Le Constellation opnaði árið 2015 og rúmaði um það bil 300 manns. Staðurinn var vinsæll meðal unga fólksins sem heimsótti skíðabæinn og þekktur fyrir að horfa í gegnum fingur sér þegar kom að því að hleypa einstaklingum undir aldri inn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×