Gagnrýni

Við þurfum að ræða Sydney Sweeney

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Leikkonurnar Sydney Sweeney og Amanda Seyfried fara með aðalhlutverkin í The Housemaid. Sweeney leikur húshjálpina Millie Calloway og Seyfried leikur húsfreyjuna Ninu Winchester sem ræður hana til starfa.
Leikkonurnar Sydney Sweeney og Amanda Seyfried fara með aðalhlutverkin í The Housemaid. Sweeney leikur húshjálpina Millie Calloway og Seyfried leikur húsfreyjuna Ninu Winchester sem ræður hana til starfa. Lionsgate

Ung kona sem hefur ekki átt sjö dagana sæla virðist hafa dottið í lukkupottinn þegar hún fær óvænt starf sem húshjálp hjá ríkum hjónum. Fljótt renna á hana tvær grímur þegar húsfreyjan fer að haga sér undarlega og ýmis ljót leyndarmál koma upp á yfirborðið. The Housemaid er hressandi, subbulegur sálfræðitryllir sem líður fyrir ósannfærandi aðalleikkonu í Sydney Sweeney.

The Housemaid, eða Húshjálpin, byggir á samnefndri metsölubók eftir Freidu McFadden sem kom út 2022. Bókin varð gríðarvinsæl á BookTok (bókmenntahluta TikTok), sat í 83 vikur á metsölulista Amazon og hefur selst í milljónatali. Aðeins tveimur árum eftir útgáfu var ákveðið að aðlaga söguna að skjánum. 

Leikstjórinn Paul Feig, sem hefur gert það gott sem gamanmyndaleikstjóri síðustu fimmtán ár, er bæði framleiðandi og leikstjóri myndarinnar en handritið skrifar Rachel Sonnenfield.

Ungstirnið Sydney Sweeney er í aðalhlutverki ásamt Amöndu Seyfried sem áhorfendur þekkja úr Mean Girls (2004) og Mamma Mia! (2008). Þeim til halds og trausts eru Brandon Sklenar, Michele Morrone, Indiana Elle og Elizabeth Perkins.

Housemaid segir frá Millie Calloway (Sweeney), heimilislausri ungri konu á skilorði, sem sækir um sem húshjálp hjá Winchester-fjölskyldunni. Hlýja húsfreyjan Nina (Seyfried) býður henni starfið og Millie flytur inn á heimilið þar sem hún kynnist sjarmerandi heimilisföðurnum Andrew (Sklenar), snúðugri dótturinni Cece (Elle) og dularfulla garðyrkjumanninum Enzo (Morrone). En eitthvað er ekki eins og það á að vera. Áður en Millie veit af, er hún komin á bólakaf í vandræði og má ekki missa vinnuna.

Konur sem hverfa og hallærislegur hryllingur

Best er að segja ekki meira um framvinduna til að spilla upplifuninni ekki fyrir lesendum. En það er hægt að rýna aðeins í greinina sem hún tilheyrir og leikstjórann til að varpa ljós á innihaldið.

Paul Feig gat sér gott orð sem leikstjóri í sjónvarpi áður en hann sprakk út með Bridesmaids (2011) sem er ein besta grínmynd síðustu tuttugu ára. Henni fylgdi Feig eftir með misgóðum grínmyndum á borð við The Heat (2013), Spy (2015) og Ghostbusters (2016). Feig færði sig síðan yfir á dekkri lendur með tvíleiknum A Simple Favor (2018) og Another Simple Favor (2025) sem héldu þó gamansömum undirtóni.

Þær tvær síðastnefndu má segja að séu hluti af ákveðinni tegund sálfræðitrylla sem kom í kjölsoginu af hinni geysivinsælu Gone Girl (2014) sem byggði á samnefndri bók eftir Gillian Flynn. Aðrar sem mætti nefna eru Girl on the Train (2016) og The Woman in Cabin 10 (2025).

A Simple Favor, Another Simple Favor og Gone Girl.

Þetta eru myndir byggðar á metsölubókum eftir konur sem fjalla um konur sem hverfa eða verða vitni að mannshvarfi og innihalda æsilegar fléttur. Ólíkt Gone Girl, sem er hreinn og beinn sálfræðitryllir, er tvíleikur Feig mun léttari, verður svört kómedía á köflum og inniheldur camp-einkenni. 

Hugtakið „camp“ hefur (sýnist mér) ekki verið þýtt almennilega á íslensku en það fangar ákveðna fagurfræði eða stíl sem einkennist af ýkjum, gervileika og háði. Hugtakið er oft notað í tengslum við myndir sem eru svo lélegar að þær verða góðar eða innihalda svo uppskrúfaðan leik að úr verður leikrænn raunveruleiki.

Winchester-hjónin eiga flókið samband.

Feig gengur meðvitað inn í þennan stíl í Favor-myndunum tveimur, leikarararnir eru ýktir, tónninn pínu hallærislegur og melódramatíska fléttan yfirdrifin. Leikur aðalkvennanna tveggja og kemistrían þar á milli tryggði þó líka að formúlan gengi upp. The Housemaid einkennist á köflum af svipuðum camp-tóni. 

Eftir að Millie kemur inn á heimilið átta áhorfendur sig fljótlega á að það er eitthvað á ská. Húsfreyjan er vanstillt, vansæl og virðist andlega veik. Seyfried leikur hina þjökuðu Ninu með miklum tilþrifum og ýktum leik. Það virkar hins vegar vel innan melódramatíska rammans og heimsins sem búið er að skapa. Þegar púslin fara að raðast saman eftir því sem líður á myndina virkar þetta enn betur.

Húshjálpin Millie lendir í ýmsum vandræðum.

Hægt og rólega byggir Feig upp þrúgandi óþægindi og matar áhorfendur með nýjum upplýsingum sem eiga ýmist að varpa ljósi á hvað er að gerast eða villa um fyrir manni. Heimilisfaðirinn er ágætlega leikinn af hönkinu Sklenar sem þarf að eiga við erfiða eiginkonu og hrífst af ungu heimilishjálpinni. 

Spennan verður töluverð, svo skiptir Feig alveg um tón og kúrs áður en hann snýr aftur á áhorfendur. The Housemaid tekst þannig að flakka milli melódramatíkur og alvarlegrar spennu yfir í væmna rómantík og jafnvel út í subbulegan hrylling. 

Stærsti ókosturinn hvað tóninn varðar er að Feig virðist stundum ekki vita hvort hann vill gera þráðbeinan spenntutrylli eða „campy“ kómedíu. Ég hefði viljað sjá hann vera meira afgerandi, sækja meira í kómedískar rætur sínar og ýkja söguna enn frekar. Svo gerist það líka á lykilkafla myndarinnar að áhorfendur fá tvö löng útskýrandi atriði í röð sem hægja verulega á flæðinu og draga úr krafti fléttunnar. Meiri klókindi vantaði þar til að halda sýningunni gangandi.

Svo er stór fíll í herberginu sem þarf að ræða.

Áhugalaus Sydney Sweeney skemmir fyrir 

Sydney Sweeney er áhugalaus, ósannfærandi og algjörlega flöt í hlutverki húshjálparinnar Millie. Hún þarf vissulega að eyða stórum hluta tímans í að bregðast við því sem er að gerast meðan Seyfried fær safaríkari rullu og meiri hasar. Þrátt fyrir það er stundum eins og Sweeney nenni varla að vera þarna.

Sjá einnig: Euphoria æði á samfélagsmiðlum

Sweeney hefur rísandi stjarna í Hollywood síðustu ár, bæði vegna leiks síns og föngulegs útlits. Hún braust fram á sjónarsviðið í táningaþáttunum Euphoria árið 2019 og fylgdi því eftir með fínni frammistöðu sem besservissera-unglingur í fyrstu seríu af White Lotus árið 2021. Það var svo rómantíska gamanmyndin Anyone But You sem sló í gegn árið 2023 sem virtist ætla að festa hana í sessi sem nýja súperstjörnu. Síðan þá hefur ferill Sweeney hins vegar gengið brösuglega.

Bæði ofurhetjumyndin Madame Web og spennutryllirinn Eden floppuðu árið 2024. Leikkonan lagði mikið á sig fyrir hlutverk boxarans Christy Martin í ævisögumyndinni Christy á síðasta ári en hún floppaði líka algjörlega. Þá eru ónefndar nokkrar myndir sem hefur farið lítið sem ekkert fyrir.

Sjá einnig: Sweeney sökuð um kynþáttahyggju

Á sama tíma hefur Sweeney ítrekað verið á milli tannanna á fólki vegna skoðana sinna og persónulegra mála. Leikkonan var sökuð um að kynda undir kynþáttahyggju þegar hún tók þátt í auglýsingaherferð gallabuxnamerkisins American Eagle sem gekk að miklu út á orðagrín tengt genum og erfðum. 

Viðbrögð Sweeney sjálfrar, þar sem hún gerði lítið úr gagnrýninni, vöktu ekki minni úlfúð fólks. En það er allt gott og blessað og skiptir í sjálfu sér engu máli. Þegar fólk verður jafnstórt og Sweeney fer það undir ákveðna smásjá og verður berskjaldaðra fyrir gagnrýni á allt og ekkert. Ég hef meiri áhuga hér á leik Sweeney. 

Ég missti af Euphoriu en sá Sweeney í Hvíta lótusnum og fannst hún virka vel þar sem dyntóttur unglingur. Það var svo ekki fyrr en seint á síðasta ári sem ég sá loksins hina geysivinsælu Anyone But You og varð dálítið hissa.

Nina skammar Millie.

Sweeney er hreinilega ekki nógu góð leikkona. Hún er með einhverja verstu framsögn sem maður hefur heyrt (og er heppin að starfa ekki á sviði), gleypir öll orðin sín og ber þau yfirleitt flatneskjulega fram. Stundum er eins og hún sé föst í sama tóninum, komist ekki úr hlutlausum. 

Þetta er sérstaklega áberandi í The Housemaid þar sem hún kemst ekki í takt við æsilega melódramatíska stemminguna. Frammistaða hennar er stór hluti af því að myndin fer ekki fyllilega út í camp-veislu. Leikur Sweeney er ekki svo lélegur að hann verði góður heldur bara flatur og óspennandi.

Niðurstaða

The Housemaid er subbulegur sálfræðitryllir með fáránlegri fléttu þar sem flakkað er milli melódramatíkur, alvarleika, rómantíkur og hryllings. Þrátt fyrir það finnst manni á köflum sem myndin gangi ekki nógu langt og leikstjórinn haldi aftur af sér þegar hann ætti að sleppa af sér beislinu.

Amanda Seyfried er frábær sem truflaða húsfreyjan Nina og kemur því til skila með ofsafengnum augngotum og yfirdrifnum leik. Sydney Sweeney verður til samanburðar eins og pappaspjald, algjörlega flöt og vaknar ekki almennilega til lífsins fyrr en fyrir rest.

Húshjálpin er fínasta bull og endar á skemmtilega rugluðum nótum. Á heildina litið er hún hins vegar æði misjöfn, aðeins of löng og stundum of slöpp. Áhorfendur sem koma að myndinni með opið hjarta fyrir hressandi rugli eiga þó von á góðum skammti.


Tengdar fréttir

Kynferðislega ófullnægður forstjóri finnur sér ungan graðfola

Romy Mathis hefur unnið sig upp á toppinn sem forstjóri tæknifyrirtækis, er gift elskulegum manni og á tvær dætur. En hún hugsar líka brenglaðar hugsanir og er kynferðislega ófullnægð. Ungur starfsnemi sér í gegnum hana og veit hvaða hún vill: láta einhvern taka af sér völdin og drottna yfir sér.

Neista­laus trekantur leiðin­lega fólksins

Materialists er rómantísk gamanmynd sem fjallar um ástarþríhyrning hjónabandsmiðlara, ríks fjárfestis og fátæks leikara. Myndina skortir þó tvennt: gamanið og rómantíkina. Eftir stendur mynd um grunnhyggið, óspennandi og leiðinlegt fólk.

Tveggja barna miðaldra móðir sem er sjúk í strákinn

Bridget Jones er snúin aftur í enn eitt skiptið, nú miðaldra tveggja barna móðir. Þó Bridget sé alltaf jafn klaufsk og ógeðslega fyndin þá kveður við fullorðinslegri (og ögn væmnari) tón en áður. Fólk sem þyrstir í góða rómantíska gamanmynd með klassískum ástarþríhyrning verður ekki svikið.

Úr öskunni í eldinn

James Cameron býður áhorfendum í þriðja sinn til Pandóru að fylgjast með Na'vi-fólkinu berjast gegn ofsóknum mannanna. Sjónarspilið, hasarinn og tæknibrellurnar eru fyrsta flokks þó formúlan sé farin að þynnast. Aðdáendur seríunnar til þessa verða ekki sviknir en vantrúaðir verða heldur ekki sannfærðir úr þessu. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.