Innlent

Fyrsta ár Náttúruverndarstofnunar gekk glimrandi vel

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Sigrún Ágústsdóttir, sem er forstjóri Náttúruverndarstofnunar en stofnunin er með höfuðstöðvar sínar á Hvolsvelli.
Sigrún Ágústsdóttir, sem er forstjóri Náttúruverndarstofnunar en stofnunin er með höfuðstöðvar sínar á Hvolsvelli. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Nýliðið ár var mikið uppskeruár hjá Náttúruverndarstofnun því gestastofur voru opnaðar víða um land. Þá voru sérstakar sýningar opnaðar á Kirkjubæjarklaustri, í Mývatnssveit og á Hellissandi en allar þessar sýningar fengu sérstök hönnunarverðlaun.

Náttúruverndarstofnun er ríkisstofnun og heyrir undir umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytið. Stofnunin tók til starfa 1. janúar 2025 og sinnir verkefnum sem snúa að náttúruvernd, lífríkis- og veiðistjórnun. Höfuðstöðvar stofnunarinnar eru á Hvolsvelli þar sem Sigrún Ágústsdóttir stýrir stofnuninni. En hvernig hefur þetta fyrsta ár gengið?

„Þetta hefur verið heilmikið mótunarár en það sem hefur verið ótrúlega skemmtilegt og bara magnað er að þetta var mikið uppskeruár líka. Við höfum verið að opna gestastofur víða um land en við vorum, sem sagt bæði að opna sýningu á Kirkjubæjarklaustri og síðan í Mývatnssveitinni á þessu sama ári og núna síðast á Hellissandi. Og það, sem er enn skemmtilegra er að þessar gestastofur fengu hönnunarverðlaun, „Besta fjárfestingin 2025“,” segir Sigrún alsæl.

Þetta er ótrúlega vel gert hjá ykkur, ertu ekki ánægð?

„Jú, þetta er alveg með ólíkindum og bak við þetta er náttúrulega mikil elja starfsfólks og þekking og þau leggja alla þekkinguna sína inn í sýningarnar og fá með sér bara frábæra hönnuði, sem að láta þetta svo vakna til lífsins í sýningum, þannig að ég verð að mæla með því við alla að skoða þessar sýningar, leggja bara 2026 í það,” segir Sigrún hlæjandi.

Hreindýr við Höfn í Hornafirði að pissa.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Sigrún segir að Náttúruverndarstofnun sinni öllum náttúruverndarsvæðum Íslands nema Þingvöllum, en um 130 staði er að ræða.

„Við sinnum líka veiðistjórnun, það að segja veiðum á fuglum og spendýrum, hreindýrin til dæmis svo eitthvað sé nefnt og rjúpan, þannig að við erum náttúrulega í skemmtilegustu verkefnunum, erum heppnust af öllum,” segir Sigrún.

Heimasíða stofununarinnar

Starfsemi Náttúruverndarstofnunar er mjög fjölbreytt en á heimasíðu stofnunarinnar er hægt að kynna sér það allt miklu frekar.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×